Dregur úr vindi og ofankomu

Búast má við éljagangi á norðan- og austanverðu landinu á …
Búast má við éljagangi á norðan- og austanverðu landinu á morgun en annars skýjað með köflum eða bjartviðri. mbl.is/Styrmir Kári

Draga mun úr norðan og norðaustan vindi og ofankomu í kvöld og í nótt, sér í lagi norðan og austan til á landinu. Að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, má búast við sæmilegu veðri á morgun, 5 til 13 metrum á sekúndu.

„Það verður skýjað með köflum víða en áfram él á víð og dreif, þá einkum norðaustanlands,“ segir Helga og bætir við að hugsanlega verði él við suðvesturströnd landsins, éljabakki sé skammt undan en þó sé ekki víst hvort hann nái inn á landi. Má því vænta þess að þurrt verði lengst af á suðvesturhorninu á morgun.

Veðurkort: Veðurvefur mbl.is

Í vikunni verður áfram svalt veður með norðaustlægum áttum en á fimmtudag snýst í vaxandi suðaustan átt sem breytist í austan hvassviðri eða storm á fimmtudagskvöld. Gengur veðrið yfir aðfaranótt og fyrri part föstudags.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhring:

Norðlæg átt, 10-18 m/s, hvassast A-til og hvassir vindstrengir við fjöll suðaustantil. Él norðan- og austantil, en annars skýjað með köflum eða bjartviðri. Dregur úr vindi og ofankomu í kvöld og nótt.

Norðaustan 5-13 m/s á morgun, skýjað með köflum og dálítil él á víð og dreif, einkum norðaustantil. Hiti víða 0 til 5 stig sunnan- og vestantil að deginum, en annars um frostmark. Heldur svalara á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert