Svarar ekki um skattaskýrslur

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur við lyklunum af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Sigurður Ingi Jóhannsson tekur við lyklunum af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. mbl.is/Júlíus

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vildi ekki svara spurningum blaðamanns mbl.is sem tengdust birtingu skattaskýrslna og svokölluðum CFC framtölum þar sem fram koma sundurliðaðar upplýsingar um aflandsfélög.

Eftir lyklaafhendingu í forsætisráðuneytinu var Sigmundur spurður hvort hann ætlaði að birta skattaframtöl sín og CFC skýrslur en svaraði hann því til að hann vissi ekki annað en að allt um hann væri þegar birt. mbl.is hefur undanfarna daga ítrekað reynt að að ná tali af Sigmundi og aðstoðarmönnum hans varðandi birtingu á þessum upplýsingum án árangurs.

Eftir afhendingu lyklanna sagði Sigmundur að það væru blendnar tilfinningar að fara út úr ráðuneytinu en hann færi þaðan sáttur. „Ég veit að það verður haldið áfram með þau gríðarlega stóru og mikilvægu verkefni sem eru í gangi og Sigurður Ingi er svo sannarlega maðurinn til að fylgja því eftir,“ sagði Sigmundur.

Hann sagðist hafa vaknað í morgun og kona hans og dóttir hefðu verið hressar og glaðar og hlakkað til að fara með honum í frí í nokkra daga. Sigmundur tók þó fram að það væri ekki út í geim eða á suðræna eyju.

Sigmundur ætlar áfram að vera formaður Framsóknarflokksins. Aðspurður hvort hann ætli að reyna að komast aftur í ráðuneyti eftir næstu kosningar sagði Sigmundur að enginn viti hvað framtíðin beri í skauti sér.

Sigmundur Davíð sagði að allt um hann hefði verið birt. …
Sigmundur Davíð sagði að allt um hann hefði verið birt. Það á þó ekki við um skattframtöl hans eða CFC skýrslur tengdar aflandsfélagaeign. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert