„Við elskum að vera hérna“

Ljósmynd úr einkasafni

„Eina sem við viljum er ró og friður og að börnin okkar eigi örugga framtíð. Við höfum ekki beðið um neina hjálp frá félagsþjónustu, við viljum borga til baka til samfélagsins og ekki vera byrði. Við erum ennþá ung og getum hafið nýtt líf.“

Þetta segir Irina Seibel en hún og fjölskylda hennar verða nú send til Frakklands á næstu vikum en hælisumsókn þeirra var ekki tekin til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Fólkið kemur frá Úsbekistan en þau flúðu heimalandið eftir að hafa orðið fyrir trúarofsóknum.

Forsaga málsins er sú að fjölskyldan fór í sendiráð Frakklands í Úsbekistan og sótti þar um vegabréfsáritun til Íslands en franska sendiráðið sér um mál Íslands í Úsbekistan. Fjölskyldan gat þá framvísað svokölluðu boðsbréfi til Íslands frá íslenskri ferðaskrifstofu sem sýndi að þau hefðu keypt sér flugmiða til Íslands og borgað þar fyrir gistingu. Sendiráðið afgreiðir vegabréfsáritunina, fjölskyldan fer til Íslands, og sækir hér um hæli en umsókn þeirra var ekki tekin til meðferðar. Að sögn lögmanns fjölskyldunnar, Helgu Völu Helgadóttur, var það vegna þess að íslensk stjórnvöld litu svo á að fjölskyldunni hefði verið veitt vegabréfsáritun til Frakklands og þess vegna var umsókn þeirra ekki tekin til meðferðar.

Helga Vala segir úrskurð íslenskra yfirvalda á skjön við Dyflinarreglugerðina. „Samkvæmt henni er það ríkið sem veitir vegabréfsáritun sem ber ábyrgð á hælisumsókn nema ef ríkið er að gera það fyrir hönd annars ríkis rétt eins og í þessu tilviki,“ segir Helga Vala.

Að sögn Helgu Völu var reynt að ná sambandi við sendiráð Frakklands í Úsbekistan til að sanna að þeim hafi verið veitt vegabréfsáritun til Íslands án árangurs. „Það svaraði enginn okkur,“ segir Helga og bætir við að málið sé án efa sérstakt og reyni gífurlega á Dyflinnarreglugerðina.

Irina og maður hennar, Vladimir, eiga þrjú börn og ganga þau öll í Akurskóla í Innri-Njarðvík. Börnin skilja nú íslensku, hafa eignast vini og stunda tómstundir. Þegar að fjölskyldunni verður vísað úr landi þurfa þau að fara til Frakklands og að sögn Irinu er sú tilhugsun skelfileg vegna óvissunnar sem ríkir í málefnum flóttamanna og hælisleitenda í landinu.

Hún segir að hún og maður hennar hafi mikinn áhuga á því að fá vinnu á Íslandi. En vegna óvissunnar síðustu mánuði var erfitt að skuldbinda sig og erfitt að finna starf. Þeim var þó boðin störf, henni í þvottahúsi og honum í byggingavinnu en vegna skorts á leyfum gátu þau ekki þegið störfin.

Að sögn Irina finnst fjölskyldunni mjög gott að vera á Íslandi. „Við elskum að vera hérna, við erum að læra íslensku og erum byrjuð að skilja tungumálið aðeins. Við vildum fara að skipuleggja framtíðina, finna vinnu, kaupa okkur lítið hús og jafnvel opna rússneskt kaffihús. En það breyttist allt þegar að lokaniðurstaða kom í málið. Eina sem við viljum er að lifa í friði og ró,“ segir Irina.

„Margir halda að við lítum á Ísland sem bara tímabundið heimili og að við viljum fara til Bandaríkjanna eða Kanada en það er ekki þannig. Við viljum bara vera hér.“

Irina og Vladimir eru ánægð í Njarðvík.
Irina og Vladimir eru ánægð í Njarðvík. Ljósmynd úr einkasafni

Fyrri frétt mbl.is: „Hér göngum við frjáls úti á götu“

Börnin eru ánægði í Akurskóla og eru búin að læra …
Börnin eru ánægði í Akurskóla og eru búin að læra íslensku. Ljósmynd úr einkasafni
Milina æfir körfubolta með Njarðvík.
Milina æfir körfubolta með Njarðvík. Ljósmynd úr einkasafni
Börn­in hjónanna, hin níu ára gamla Mil­ina og tví­bur­arn­ir Sam­ir …
Börn­in hjónanna, hin níu ára gamla Mil­ina og tví­bur­arn­ir Sam­ir og Kemal sem eru sex ára, Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert