Ástþór skýtur á Guðna og Davíð

Forsetaframbjóðendurnir níu í umræðum á RÚV.
Forsetaframbjóðendurnir níu í umræðum á RÚV. Skjáskot/RÚV

Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, segist ekki hafa verið búinn að ákveða að fara í forsetaframboð þegar hann var tíður gestur á skjám landsmanna sem óháður álitsgjafi RÚV.

Þetta sagði hann í umræðum forsetaframbjóðenda sem nú fara fram á RÚV. Guðni Th. sagði því öfugt farið, hann hafi sagt fólki sem skoraði á sig að hann mæti áhugann mikils en hann teldi ekki rétt að bjóða sig fram að sinni.

„Svo breytast hlutirnir og maður tekur ákvörðun í því ljósi,“ sagði Guðni sem sagðist hafa horfið af sjónvarpsskjám sem álitsgjafi um leið og hann hafi loks ákveðið að bjóða sig fram.

Hart skotið

Ástþór Magnússon gagnrýndi Guðna og sagði hann ekki segja sannleikann um sitt framboð. Sagði hann fyrrverandi fréttamann á Ríkisútvarpinu standa að baki framboðinu og umboðsmann Guðna Th. vera lögmann bandarískra vogunarsjóða.

Guðni hafnaði þessu alfarið. „Umboðsmaður minn heitir Þorgerður Anna Arnardóttir og er kennari og framkvæmdastjóri Friðjón Friðjónsson,“ sagði Guðni og Ástþór greip frammí fyrir honum og benti á að Friðjón hafi verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Sagði Ástþór því næst að Guðni hafi gleymt að telja upp Pétur Örn Sverrisson sem unnið hafi fyrir bandaríska vogunarsjóði að því „hvernig megi með klækjum taka milljarða úr bönkum“ hérlendis. Sagði Ástþór að Pétur hafi lagt fram lista fyrir Guðna hjá kjörstjórnum.

Stjórnendur þáttarins hjuggu eftir því hver fréttamaðurinn fyrrverandi væri sem starfaði fyrir framboð Guðna. „Magnús Lyngdal Magnússon. Hann er kosningastjóri og starfar í framboðinu,“ sagði Ástþór og bætti við að hann hefði „smyglað inn manni“ hjá Ríkisútvarpinu.

Ástþór sagði Guðna eiga að leggja spilin á borðið svo að kjósendur kjósi ekki úlf í sauðargæru. Sagði hann því næst Davíð Oddson vera úlf en hann leyni því ekki og sé því ekki í sauðargæru og benti á skjöl sem sýni að hann hafi varað við innrásinni í Írak árið 2001.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert