Viðbragðsáætlun virkjuð á Landspítala

Fólksbifreið og jeppi skullu saman í Hvalfjarðargöngum um klukkan tvö …
Fólksbifreið og jeppi skullu saman í Hvalfjarðargöngum um klukkan tvö í dag. mbl.is/Golli

Viðbragðsáætlun hefur verið virkjuð á Landspítala vegna alvarlegs áreksturs sem varð í Hvalfjarðargöngunum um klukkan tvö í dag. 

Frétt mbl.is: Nokkrir fluttir á Landspítala

Tvær bifreiðar skullu saman í göngunum, jeppi og fólksbifreið, og var mikill viðbúnaður hjá viðbragðsaðilum vegna slyssins. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang auk þess sem tæknibíll slökkviliðsins, lögreglubílar og a.m.k. fimm sjúkrabílar voru sendir á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er það hefðbundið verklag að virkja viðbragðsáætlun þegar stórslys verða. Ekki fengust frekari upplýsingar gefnar upp um líðan þeirra sem voru fluttir á Landspítala, en fjórir voru fluttir slasaðir á Landspítala samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hvalfjarðargöngum var lokað vegna árekstursins og liggur ekki fyrir hvenær þau opna aftur, en skv. upplýsingum frá Speli verður það ekki í bráð. Hægt er að komast hjáleið um Hvalfjörð.

Uppfært kl. 16:07

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu voru fimm fluttir á Landspítala en ekki fjórir eins og áður var haldið fram í fréttinni. Landspítali staðfestir aftur á móti að fjórir hafi verið fluttir slasaðir á sjúkrahúsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert