Voru svikin um miða á leikinn

Þó nokkrir Íslendingar sátu eftir með sárt ennið fyrir utan …
Þó nokkrir Íslendingar sátu eftir með sárt ennið fyrir utan Stade de France eftir að hafa verið sviknir um miða á leikinn. AFP

Svo virðist sem fjöldi fólks hafi ekki fengið miða á leik Íslands og Frakklands þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þá. Mikillar reiði gætir á Twitter og í Facebook-hópnum „Ferðagrúppa fyrir EM 2016“ en þar segist fólk hafa verið svikið um miða af manni sem hafði milligöngu um kaupin.

Samkvæmt frétt á vef RÚV var Kristján Atli Baldursson meðal þeirra sem fengu ekki miða en hann keypti 100 aðgöngumiða af manninum og greiddi fyrir 5,3 milljónir króna. „Ég titra bara,“ hefur RÚV eftir Kristjáni, sem skipulagði ferð með leiguflugi frá Akureyri til Frakklands.

Í kvöldfréttum RÚV var rætt við konu sem einnig keypti miða af manninum en að hennar sögn biðu yfir 100 manns eftir miðum fyrir utan Stade de France þegar leikurinn var að hefjast.

Hún segir að maðurinn hafi að lokum látið sjá sig, og haft einhverja miða með sér, en margir sátu þó eftir með sárt ennið þegar hann var skyndilega leiddur á brott af frönsku lögreglunni.

Samkvæmt RÚV sátu þeir sem fengu miða meðal stuðningsmanna Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert