Leynist Pokémon á Vatnajökli?

Pokémon Go hefur náð ævintýralegum vinsældum þrátt fyrir að leikurinn …
Pokémon Go hefur náð ævintýralegum vinsældum þrátt fyrir að leikurinn hafi komið út í síðustu viku. Skjáskot/Youtube

„Fólk hefur kannski séð mig ganga um bæinn með símann á lofti að finna Pokémona,“ segir Sturla Freyr Magnússon sem er einn stjórnenda í hópnum Íslenskir Pokémon-þjálfarar. Nýjasti Pokémon GO-tölvuleikurinn hefur vakið mikla athygli enda ganga spilendur nú sjálfir um göturnar og safna Pokémonum.

„Þetta er í raun blanda af tveimur leikjum. Hinum klassísku Pokémon-leikjum fyrir Game Boy og síðan leiknum Ingress. Síðarnefndi leikurinn varð aldrei stór á Íslandi en þessi nýi Pokémon-leikur er í raun ástaróður til þessara tveggja leikja,“ segir Sturla. 

Markmiðið er enn að „safna þeim öllum“

Hann segir að hægt sé að spila leikinn á tvennan hátt. „Það eru tvær aðalleiðir til að spila hann. Opinbera markmiðið er að safna öllum Pokémonum og síðan er hægt að keppa um stöðvar sem aðrir leikmenn hafa komið Pokémonum fyrir í til að vernda þær. Aðalmarkmiðið er samt auðvitað að „safna þeim öllum“ eins og segir í laginu fræga.“

Sturla Freyr Magnússon.
Sturla Freyr Magnússon. Mynd/Facebook

Fullyrðing Sturlu um að Pokémon-lagið sé frægt er engum ofsögum sagt. Þegar vinsældir Pokémon stóðu sem hæst vissu nær öll börn hvað fyrirbærið væri og kunnu jafnvel nöfnin á yfir 100 mismunandi tegundum af Pokémonum. Tekjur Nintendo af Pokémon frá upphafi eru taldar vera um 40 milljarðar Bandaríkjadollara.

Nýjasti leikurinn var líkastur vítamínsprautu fyrir fyrirtækið. Verðmæti á hlutabréfum í þessu japanska tölvuleikjafyrirtæki hefur rokið upp síðustu daga eins og greint var frá á mbl.is í dag.

Sjá frétt mbl.is: Pokemon skýtur Nintendo á toppinn

Aðrir hafa notað leikinn í annarlegum tilgangi eins og greint var frá í dag þegar glæpagengi í Bandaríkjunum notaði staðsetningarbúnaðinn í leiknum til að finna grandlausa spilara og ræna þá. 

Sjá frétt mbl.is: Rændu grandlausa Pokémon-spilara

Enn annar notandi í Bandaríkjunum lenti í miður skemmtilegu atviki þegar hann fann lík af manni þegar hann var í raun að leita að Pokémon. 

Sjá frétt mbl.is: Leitaði að Pokémonum - fann lík

Í nýjasta leiknum er aðeins hægt að ná í hinn upprunalega 151 Pokémon, af svokallaðri fyrstu kynslóð. „Sjálfur spilaði ég bara fyrstu leikina með fyrstu tveimur kynslóðunum af Pokémonum,“ segir Sturla og bætir við: „En nú þegar þessi leikur kom er draumurinn sem ég hafði sem barn um að geta sjálfur fangað Pokémona að rætast. Fyrir alla þá sem hafa spilað gömlu leikina þá er draumur þeirra að rætast.“

Leikurinn virkar þannig að þú færð vísbendingar um það hvar Pokémonar kunna að leynast. Svo þarftu að ganga um bæinn með símann á lofti til að fanga þá. 

Pokémonar kunna að leynast á ýmsum stöðum eins og Sturla fékk sjálfur að kynnast. „Ég var sjálfur staddur að veiða í kringum Hótel Sögu. Þá reyndist einn vera í gryfjunni á byggingarsvæði [við Hús íslenskra fræða, innsk. blm.]  Þá þurfti ég að hlaupa hringinn í kringum gryfjuna áður en ég gat í einu horni hallað mér upp að grindverkinu til að ná honum,“ segir Sturla.

Paras leyndist í Hádegismóum, Articuno á Vatnajökli?

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa gefið það út að í framtíðinni verði hægt að skiptast á Pokémonum líkt og í gömlu leikjunum. Enn sem komið er þurfa leikmenn að finna Pokémona og geta þeir leynst alls staðar eins og blaðamenn mbl.is kynntust þegar þeir prófuðu leikinn. Þá birtist Pokémoninn Paras eins og álfur út úr hól beint fyrir aftan þá uppi í Hádegismóum. Paras grunaði ekki neitt þar til hann var allt í einu kominn í eigu ánægðs blaðamanns.

Sturla segir um 200 félaga vera í hópnum Íslenskir Pokémon-þjálfarar. „Ég hef síðan orðið var við að fleiri séu að spila þetta. Þetta fer vaxandi á hverjum degi á Íslandi en við höfum enn engar tölur yfir fjölda spilara.“

Paras birtist fyrir aftan blaðamann uppi í Hádegismóum.
Paras birtist fyrir aftan blaðamann uppi í Hádegismóum. mbl.is

Pokémonarnir eru svo missjaldgæfir eins og var með spilin í gamla daga sem margir krakkar skiptust á. „Það er rosalega mikill munur á því hversu sjaldgæfir þeir eru. Sumir finnast alls staðar en því sjaldgæfari sem þeir eru, því erfiðara er að vita hversu margir eru til af hverri tegund. Það ganga til dæmis sögur af því að einn af þremur Pokémonum af ákveðinni tegund á Íslandi sé að finna á Vatnajökli. Hópurinn sem ég er í er að íhuga hópferð á Vatnajökul. En það bíður sennilega betri tíma,“ segir Sturla.

Hinn umræddi, sjaldgæfi Pokémon er hinn goðsagnakenndi Articuno og er flokkaður í flokknum „Legendary Pokémon,“ hvorki meira né minna.

Hópveiði á laugardaginn

Á laugardaginn ætlar svo fólk úr hópnum að hittast og stunda svokallaða hópveiði. Virkar það þannig að þegar margir spilarar eru saman komnir er auðveldara að lokka til sín Pokémona. „Við erum að finna stað þar sem við getum hist og kveikt öll á leiknum á sama tíma og þannig fyllt staðinn af Pokémonum. Það verður líka kjörið tækifæri fyrir nýja spilara að veiða einhverja Pokémona.“

Sturla segir þessa tegund af tölvuleik vera dæmi um nýsköpun innan tölvuleikjaiðnaðarins. „Ég myndi segja að þetta sé ein af framtíðum tölvuleikjanna, að leikurinn gerist úti í heimi. Þetta byrjaði allt með Ingress-leiknum. Ég prófaði hann líka og fólk er almennt sammála því að þessir leikir eru mjög svipaðir fyrir utan það að þessi leikur hefur þetta skemmtilega Pokémon-element.“

Pikachu er einn þeirra Pokémona sem hægt er að veiða …
Pikachu er einn þeirra Pokémona sem hægt er að veiða í nýja leiknum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert