Engir litlir sætir bangsar

Krufningu birnunnar lýkur í kvöld.
Krufningu birnunnar lýkur í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Krufningu bjarndýrsins sem fellt var í nótt lýkur í kvöld en komið var með birnuna til Reykjavíkur um klukkan hálftvö í dag. Náttúrufræðistofnun annast krufninguna og mun vernda beinagrind dýrsins. Að öllum líkindum verður birnan einnig stoppuð upp og lánuð eitthvert til sýningar að sögn Jóns Gunn­ars Ottós­sonar, for­stjóra Nátt­úru­fræðistofn­un­ar Íslands.

Umræða um deyfilyf á villigötum

Jón segir í samtali við mbl.is að hárrétt hafi verið brugðist við í gærkvöld þegar vart varð við björninn og rétt hafi verið að fella björninn. Hann telur umræðuna um að gefa dýrunum deyfilyf og halda þeim á lífi vera á villigötum, enda sé það bæði kostnaðarsamt og flókið í framkvæmd. „Þetta eru bara hættuleg dýr, þetta eru ekki einhverjir litlir sætir bangsar,“ segir Jón.

Gæti hafa synt gríðarlega vegalengd

Spurður hversu langt hann teldi birnuna hafa synt áður en hún kom að Íslandi segir Jón það geta hafa verið gríðarlega vegalengd. „Annað hvort hefur bráðnað undan henni, hún hefur verið á einhverjum ísjaka, eða þá að hún gæti þess vegna hafa synt alla leið frá Grænlandi,“ segir Jón. Hann mundi ekki tölurnar en segir þá vegalengd sem fullvaxin dýr sem þessi geta synt vera með ólíkindum langa.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert