Guðni nýorðinn prófessor

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands í gær en fyrir mánuði síðan urðu einnig ákveðin tímamót á ferli hans þegar samþykkt var formlega af hálfu Háskóla Íslands að hann fengi stöðu prófessors í sagnfræði við skólann en áður gegndi hann stöðu dósents.

Guðni sótti um stöðu prófessors á síðasta ári og fór þá í gang hefðbundið ferli sem nefnist framgangur þar sem lagt er mat á viðkomandi umsækjanda og hvort hann hafi skilað því sem þurfi til þess að stíga upp um þrep að sögn Guðmundar Hálfdanarsonar, sagnfræðiprófessors og forseta hugvísindasviðs Háskóla Íslands. 

Guðni er í leyfi frá störfum sínum við Háskóla Íslands vegna kjörs hans sem forseta Íslands. Athygli vakti að Guðni var titlaður prófessor þegar hann var settur í embætti forseta í gær í ljósi þess að hann var titlaður dósent á vefsíðu hans í kosningabaráttunni.

Spurður hversu lengi Guðni getur verið í leyfi segir Guðmundur að um það gildi ákveðnar reglur en sitji hann til að mynda aðeins eitt kjörtímabil geti hann snúið aftur til fyrri starfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina