Styðja málefnið þvert á aðrar skoðanir

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna ganga saman í Gleðigöngunni.
Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna ganga saman í Gleðigöngunni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna gengu saman í Gleðigöngunni í dag, en réttindi hinsegin fólks er málefni sem allar ungliðahreyfingarnar eru sammála um. Þá gengu ungliðar Íslandsdeildar Amnesty International fyrir alla þá sem hafa ekki frelsi til að elska eða vera þeir sjálfir.

Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. mbl.is/Vífill

„Við teljum mikilvægt að ungir sjálfstæðismenn leggi sín lóð á vogarskálarnar til að tryggja réttindi hinsegin fólks og við gerum það með þessum hætti,“ segir Laufey Rún Ketilsdóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, spurð hvers vegna þeir gangi í dag.

„Við erum hér með skilti þar sem við hvetjum fólk til þess að virða einstaklinginn, til að vera og gera það sem maður vill, og erum staðföst í þeirri trú að fjölbreytnin þrífist best í frjálsu samfélagi.“

Segir hún mikilvægt að stjórnmálahreyfingar taki þátt, þar sem þær gegni stóru hlutverki í því að tryggja réttindi og tala fyrir hlutum, þannig að aðrir heyri, hlusti og fari eftir.

„Ég tel það mjög mikilvægt að ungir jafnt sem aldnir taki þátt í því að virða einstaklinginn í hvívetna.“

Ung vinstri græn í dag.
Ung vinstri græn í dag. mbl.is/Vífill

Ragnar Auðun Árnason, talsmaður Ungra vinstri grænna, segir félagið ganga til að styðja gott málefni og sýna samstöðu. „Að gera þetta með ungliðahreyfingunum sýnir að þær styðja málefni þvert á aðrar pólitískar skoðanir.“

„Við getum verið sammála um það að hinsegin fólk er alveg eins og við hin og á rétt á sömu réttindum. Það eru mannréttindi að vera eins og við erum.“

Segir hann réttindi hinsegin fólks aldrei eiga að vera neitt vafamál, fólk eigi að geta verið eins og það vill. „Fólk á ekki að þurfa að fela sína persónu og hvernig það er.“

Matthew Deaves (t.h.), segist fella tár í hverri göngu.
Matthew Deaves (t.h.), segist fella tár í hverri göngu. mbl.is/Vífill

„Mér finnst það mjög mikilvægt að við frá ungliðahreyfingunum komum út í dag og sýnum stuðning og að við viðurkennum að það er enn mikið að gera í þessu málefni“, segir Matthew Deaves frá Ungum jafnaðarmönnum.

Matthew var að mæta í sína aðra göngu hér á landi, en hefur oftar mætt í Lundúnum. Segir hann þetta alltaf jafngaman og sérstaklega sé gaman að sjá fjöldann í göngunni hér á landi, auk samstöðunnar. „Ég tárast að minnsta kosti einu sinni í svona göngu,“ segir hann og hlær.

Það sé þó enn mikil barátta eftir, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum öllum og nefnir hann skotárásina í Orlando fyrr í sumar í því samhengi. „Við þurfum að standa saman og vinna í þessu og við þurfum líka að hlusta á minnihlutahópana innan þessa minnihlutahóps.“

Ungliðahreyfing Viðreisnar.
Ungliðahreyfing Viðreisnar. mbl.is/Vífill

Ungliðahreyfing Viðreisnar lét sig ekki vanta, þrátt fyrir að ung sé. Þau Gísli Óskarsson og Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir segja sjálfsagt að mæta í gönguna og mikilvægt sé að stjórnmálahreyfingar leggi baráttunni lið.

„Þau hafa valdið með löggjöf, setja jafnréttislög, bann við mismunun og þess háttar. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar séu virkir í baráttunni og með puttann á púlsinum.“

Vöktu athygli á Túnis

Íslandsdeild Amnesty International lagði áherslu á málefni hinsegin fólks í …
Íslandsdeild Amnesty International lagði áherslu á málefni hinsegin fólks í Túnis í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslandsdeild Amnesty International tók þátt í Gleðigöngunni líkt og síðustu ár, fyrir alla þá sem hafa ekki frelsi til að elska eða vera þeir sjálfir án þess að eiga á hættu að gjalda þess dýrum dómi.

Á hverju ári vekja samtökin sérstaka athygli á einu máli sem tengist mannréttindabaráttu hinsegin fólks og í ár er það málefni þeirra í Afríkuríkinu Túnis. Nína Guðrún Baldursdóttir, frá Íslandsdeild Amnesty, segir misjafnt hvort einstaklingsmál eða þrýstingur á stjórnvöld ákveðinna landa verði fyrir valinu.

„Ástæðan fyrir því að Túnis varð fyrir valinu í ár er að Amnesty hefur verið að beita þrýstingi á stjórnvöld þar vegna þess að 2015 var nemandi í Túnis handtekinn fyrir að hafa átt samneyti við aðila af sama kyni. Til að skera úr um sekt hans var hann látinn gangast undir læknisskoðun, endaþarmsskoðun, sem tíðkast í nokkrum löndum og er aðferð til að valda niðurlægingu og á sér enda ekki stoð í neinum vísindum. Mál hans vakti mikla athygli og kveikti svolítið í baráttu hinsegin fólks í Túnis.“

Samkynhneigð er ólögleg í Túnis og refsiverð samkvæmt 230. grein refsilaga þar í landi, en viðurlög við kynlífi einstaklinga af sama kyni geta verið allt að þriggja ára fangelsisvist, auk sekta. Gleðigangan í Reykjavík er ekki eina gangan þar sem vakin er athygli á refsingum Túnisa og nefnir Nína að nýlega hafi Amnesty lagt sömu áherslu í gleðigöngunni í Stokkhólmi.

„Í kjölfar máls þessa drengs komst þetta á svolítið flug og við sjáum tækifæri til að ná fram breytingum á þessum tíma.“

Amnesty vill einnig vekja athygli á því almennt að viðurlög liggja við því að elska manneskju af sama kyni í 73 ríkjum í heiminum í dag.

Á Lækjartorgi gat fólk komið við í tjaldi Amnesty og stutt baráttu samtakanna með því að skrifa undir kröfu um að túnísk stjórnvöld grípi til aðgerða án tafar með því að fella niður grein nr. 230 og tryggja að hinsegin fólk njóti verndar og fullra réttinda í Túnis.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is