Regnboginn sem hefur prýtt tröppurnar fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík í tilefni Hinsegin daga verður þrifinn af í dag, en hátíðinni lauk í gær. Sitt sýnist hverjum um að regnboginn þurfi að fjúka svo snemma, en mbl.is ræddi við einn af skipuleggjendum hátíðarinnar um ástæður þessa.
Að sögn Gunnlaugs Braga Björnssonar, gjaldkera Hinsegin daga, var það tekið fram í samningi á milli Hinsegin daga, Reykjavíkurborgar og Menntaskólans í Reykjavík að málningin yrði þrifin af í dag, en skólahald hefst í skólanum í næstu viku.
Ekki eru allir sáttir við þetta, en fjölmargir hafa tjáð sig um málið á Facebook. Í færslu sem birt var á síðu Pride Reykjavík hafa tuttugu skrifað athugasemd og hefðu margir þeirra viljað sjá stigann áfram í regnbogalitunum.
Gunnlaugur segir regnbogann hafa vakið mikla athygli, og sú staðreynd að margir séu svekktir að sjá hann fara sýni fram á það hversu mikil ánægja sé með framtakið. Nú sé tími til kominn að leggja höfuðið í bleyti varðandi nýjan stað fyrir regnbogann á næsta ári, en eins og kunnugt var prýddi hann Skólavörðustíginn á síðasta ári.