Breyttist þegar Sigmundur Davíð fór

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir að starfið hafi gengið vel á Alþingi í vor eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, steig til hliðar. Samstarfið við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra hafi gengið vel og undir það tekur Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Þær eru gestir Páls Magnússonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni ásamt Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og Birgittu Jónsdóttur, kapteini Pírata.

Umræðuefnið eru komandi kosningar en þau eru öll sammála um að ekki verði beðið til vors með að kjósa til þings.

Birgitta segir að andrúmsloftið hafi batnað mjög á Alþingi eftir brotthvarf Sigmundar Davíðs og segir að von sé á athyglisverðum tímum á þingi í haust þegar fjárlagafrumvarp verður lagt fram.

Það er augljóst að það er engin þolinmæði lengur fyrir óheiðarlegum stjórnmálamönnum segir Óttarr og vísar þar til samstarfsins á þingi í vor.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar eiga von á því að það komi í ljós fljótlega hvaða dag verði kostið eða strax og þing kemur saman.

Svandís segir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vera í vanda og að Viðreisn virðist vera raunverulegur gerandi á stjórnmálasviðinu en stuðningsmenn Viðreisnar séu að stórum hluta óánægðir sjálfstæðismenn. 

Birgitta segir að ef Sjálfstæðisflokkurinn ætli að færa sig svona í átt að Samfylkingunni líkt og raun ber vitni í velferðarmálunum nú þá sé lag fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ganga í Samfylkinguna.

Ein þeirra sem eru að hlusta á þáttinn er Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Hún skrifar á Facebook að miklu ofbeldi sé beitt í þinginu og hún sé meðal annars að hætta á þinginu vegna þessa.

Færsla Vigdísar: „Á Bylgjunni eru Svandís, Birgitta, Óttar [sic] og Oddný að lýsa minnihluta ofbeldinu sem notað var á stjórnvöld þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra
Málið er einfalt:
Það er gríðarlegt ofbeldi sem beitt er í þinginu - frekjan er rosaleg - við höfum verið kölluð pólitískir hryggleysingjar og lindýr - ef þau fá ekki sínu fram - þá er þingið tekið í gíslingu - Svandís fer fyrir aðgerðum. 
Þingsköpin eru ónýt og allar breytingar á þeim undanfarin ár hafa að því að virðist vera samin af lögfræðilegum amatörum. Ég er meðal annars að hætta á þingi vegna þessa ofbeldis - forseti þingsins og forsætisnefnd þora ekki að beita sér til að laga ástandið
Nú slekk ég á útvarpinu - því ég get ekki hlustað á fólk skrifa/segja söguna upp á nýtt - og geng út í sólina.“

 

 

mbl.is