Árni Páll vill leiða listann

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef hugsað mikið um næstu skref, eftir að ég ákvað að gefa ekki kost á mér til endurkjörs sem formaður flokksins í vor. Enginn á að vera eilífur í stjórnmálum og maður á alltaf við hverjar kosningar að hugsa hvert erindi manns er og meta hvort betra væri að halda til annarra verka,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni þar sem hann tilkynnir að hann ætli að sækjast eftir 1. sæti framboðslista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

„Tvennt ræður mestu um niðurstöðu mína að þessu sinni: Annars vegar liggur fyrir að tveir góðir félagar með mikla reynslu, þau Katrín Júlíusdóttir og Magnús Orri Schram sem skipuðu 2. og 3. sæti listans síðast, munu hverfa af vettvangi og endurnýjun verður því í öllu falli mikil í efstu sætunum. Það er ágætt að þar sé einhver blanda af nýju fólki og fólki með reynslu,“ segir Árni Páll. Hins vegar finni hann fyrir brennandi þörf til að taka þátt í stjórnmálaumræðunni og halda áfram að berjast fyrir þeim sjónarmiðum sem honum hafi alltaf verið kær: Jafnrétti, frjálslyndi og jöfnum tækifærum.

„Mér finnst sérstaklega mikilvægt að takast á við hindurvitni og allra handanna bullugang sem tröllríður stjórnmálaumræðunni og tala fyrir jafnaðarstefnunni og sanngjarnri úrlausn þeirra fjölmörgu verkefna sem okkar bíða. Þegar blikur eru á lofti um allan hinn vestræna heim er mikilvægt að muna að jafnaðarstefnan veitir bestu leiðsögnina til að takast á við efnahagslega óvissu, óréttlæti, einangrunarhyggju og hættu á aukinni misskiptingu.“

Árni segist ekki ætla að halda úti kosningaskrifstofu eða standa fyrir úthringingum eða öðru skipulögðu undirbúningsstarfi heldur gefa nýjum frambjóðendum eftir sviðið. „Sjálfur er ég þrautkynntur og þið vitið allt um kosti mína og galla. Vonandi mun svo vel heppnað val á framboðslista hjálpa til við að blása byr í segl Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert