Víkja megi frá lágmarksfresti

Páll Valur Björnsson.
Páll Valur Björnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðsla þess efnis að heimilt verði að víkja frá ákvæðum laganna um þriggja mánaða lágmarksfrest áður en þjóðaratkvæði fer fram ef mögulegt er að það fari fram samhliða almennum kosningum innan þess tíma. Fyrsti flutningsmaður er Páll Valur Björnsson, þingmaður flokksins.

Frumvarpið er lagt fram í tengslum við þingsályktun sömu þingmanna um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða næstu þingkosningum um það hvort frekari skref verði tekin í átt að inngöngu í Evrópusambandið. Rifjað er upp í greinargerð að rökin með þriggja mánaða lágmarksfresti séu þau að hægt sé að kynna efnið fyrir kjósendum og að þeir fái tíma til þess að gera upp hug sinn gagnvart því. Þingmennirnir telja að mögulegt þurfi að vera að víkja frá þessari reglu þegar aðstæður réttlæti það.

Frétt mbl.is: Vilja þjóðaratkvæði um aðildarviðræður

„Fyrir þessu fyrirkomulagi eru augljós þjóðhagsleg rök, enda hleypur kostnaður samfélagsins af sjálfstæðri þjóðaratkvæðagreiðslu á hundruðum milljóna króna sem með þessum hætti mætti spara. Jafnframt liggja lýðræðisleg rök að baki fyrirkomulaginu þar sem líkurnar á góðri kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu aukast fari hún fram samhliða almennum kosningum,“ segir í greinargerð. Ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að þingmenn misnoti sér slíkt ákvæði.

„Flutningsmenn þessa frumvarps telja að þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi megi treysta fyrir því að undanþágan sem frumvarpið kveður á um verði aðeins notuð þegar aðstæður réttlæti það en til dæmis ekki ef um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur um viðamikil og flókin mál sem krefjast þess lágmarksfrests sem núgildandi lög mæla fyrir um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert