Ræddu við þingmenn um Kötlu

Sigurður Bogi Sævarsson

Sex sérfræðingar á Veðurstofu Íslands komu á fund umhverfis- og samgöngunefndar fyrir hádegi í dag og ræddu við nefndina undir liðnum jarðskjálftar við Kötlu. Kynntu þeir stöðu mála fyrir nefndarmönnum, viðbragðsáætlun og ýmsar bakgrunnsupplýsingar.

Að sögn Haraldar Einarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins og öðrum varaformanni nefndarinnar, fóru sérfræðingarnir meðal annars yfir hvernig brugðist verður við ef eldgos hefst í Kötlu. Allt er með kyrrum kjörum og ekkert bendir til þess að eldgos sé að hefjast.

Að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands var einnig farið yfir hvernig eldgos undir jökli virkar og hvert jökulhlaup geta farið, komi til þeirra.  

Á vef veðurstofunnar er enn viðvörun vegna Múlakvíslar. Þar segir að jarðhitavatn renni í kvíslina, auki rafleiðni hafi mælst í ánni og gasmælingar á svæðinu sýni há gildi af brennisteinsvetni.

Fólki er bent á að staldra ekki lengi í nágrenni við ána vegna gasmengunar. Ekki er óalgengt að jarðhitavatn renni í Múlakvísl með tilheyrandi rafleiðniaukningu og gasmengun í ánni. Ekki mælist brennisteinsdíoxíð við ána eins og áður var talið.

mbl.is