Dómarar ekki vanhæfir í Kaupþingsmáli

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu verjenda þriggja sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings um að hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir vikju sæti þegar málið væri tekið fyrir nú á föstudaginn.

Verjendur höfðu vísað til þess að sonur Þorgeirs væri yfirlögfræðingur Kaupþings ehf. og að hann hefði fjárhagslega hagsmuni af því að sakfellt yrði í málum gegn fyrrverandi stjórnendum bankans. Þá hefði sonur Ingveldar starfað fyrir embætti sérstaks saksóknara á árunum 2011 til 2013.

Bent er á að nýlega hafi verið sagt frá því að lykilstarfsmenn Kaupþings muni deila með sér 1.500 milljóna bónuspotti gangi áætlanir um rekstur Kaupþings eftir. Meðal þeirra sem fái þar greitt er sonur Þorgeirs.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt upplýsingum réttarins hafi Kaupþing ehf. ekki fjárhagslega hagsmuni af einkamálum sem rekin séu á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þar sem Seðlabanki Íslands hafi sett það sem skilyrði þegar Kaupþing sótti um undanþágu frá gjaldeyrishöftum.

Verjendur Hreiðars Más Sigurðsson og Sigurðar Einarssonar kröfðust þess að …
Verjendur Hreiðars Más Sigurðsson og Sigurðar Einarssonar kröfðust þess að dómararnir væru dæmdir vanhæfir. Tók verjandi Magnúsar Guðmundssonar undir þá kröfu. mbl

„Að þessu skilyrði hafi félagið gengið og geti mál þessi því engin áhrif haft á hugsanlega launaauka til starfsmanna Kaupþings ehf. Að auki hafi Þórarinn Þorgeirsson ekkert komið að slíkum dómsmálum, hvorki töku ákvarðana um þau né undirbúning þeirra, en þau séu rekin af sérstakri deild innan félagsins, sem hann hafi engin afskipti af,“ segir í dómnum.

Varðandi meint vanhæfi Ingveldar segir Hæstiréttur að samkvæmt upplýsingum sem rétturinn hafi fengið hafi sonur hennar „starfað sem saksóknarfulltrúi við embætti sérstaks saksóknara á tímabilinu frá ársbyrjun 2011 til ágúst 2013 undir handleiðslu Arnþrúðar Þórarinsdóttur saksóknara við rannsókn mála, sem tengdust Landsbanka Íslands hf. Hann hafi að auki sinnt öðrum verkefnum, sem áttu undir verksvið embættisins en vörðuðu ekki aðra viðskiptabanka, sem teknir höfðu verið til slita, þar á meðal Kaupþing banka hf.“

Segir í dómnum að í röksemdum verjendanna hafi í engu verið hreyft við að dómararnir hafi sjálfir hagsmuni af niðurstöðu málsins. Þá sé ekki séð að niðurstaða málsins skipti nokkru fyrir hagsmuni sona dómaranna. Eru Þorgeir og Ingveldur því ekki talin vanhæf og þurfa ekki að víkja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert