„Malarvegirnir hafa lent útundan“

Aðstæður á Vatnsnesvegi.
Aðstæður á Vatnsnesvegi. Ljósmynd/Stella Guðrún Ellertsdóttir

„Það er eins með hann eins og aðra malarvegi að ekki er mikið fjármagn í viðhald á þeim,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðinnar, í samtali við mbl.is, aðspurður um hvort úrbætur á Vatnsnesvegi, vegi 711, séu væntanlegar.

Ástand Vatnsnesvegar er afar slæmt en Dv greindi frá því í gær að íbúar á svæðinu væru langþreyttir á ástandi vegarins. Auk heimamanna keyra fjölmargir ferðamenn veginn, til að bera augu náttúruperlur Vatnsness.

„Uppbygging á þessum vegi er ekki á áætlun. Það fengust aukapeningar til að hefla hann og það var gert mjög nýlega. Síðan ringdi og allt fór í sama farið. Það er lítið efni í veginum og heflanir endast stutt, sérstaklega ef veðrið er ekki gott strax á eftir,“ bætir G. Pétur við.

Þrátt fyrir að heflanir virki stundum eins og tímabundin lausn er meiningin að hefla veginn aftur á næstu dögum. „Verið er að hefla annars staðar á svæðinu og ætlunin er að skoða ef veður er þurrt að fara aftur á hann. Þetta er langur kafli og það kostar töluvert,“ en allur vegurinn eru 90 kílómetrar.

Upplýsingafulltrúinn bendir á að malarvegir hafi lent aftast í röðinni eftir hrun. „Eftir hrun má segja að við höfum lagt áherslu á að halda bundna slitlaginu við af því að ef við missum það verður svo dýrt að byggja það upp aftur. Malarvegirnir hafa lent útundan.“

mbl.is