Hvernig er viðbragðsáætlun fyrir Kötlu

Talsverð skjálftavirkni hefur verið í Kötlu síðustu daga og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi vegna þessa. Þó óvíst sé hvort til jökulhlaups eða eldgoss komi er gott að vera meðvitaður um hvernig skal bregðast við kunni náttúruhamfarir að vera í aðsigi. 

Frétt mbl.is: Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi

Til er ýtarleg viðbragðsáætlun almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra sem fylgja skal komi til eldgoss í Mýrdalsjökli og jökulhlaups niður Mýrdalssand og Sólheimasand og mbl.is tók saman helstu atriði viðbragðsáætlunar.

Íbúar hafa knappan tíma

Við upphaf eldgoss er ekki hægt að sjá fyrir um hvar jökulhlaup kann að koma undan jökli og er því brýnt að rýma strax þau svæði sem stafar hætta af jökulhlaupi. Fólk sem býr eða dvelst í nágrenni Kötlu þarf því að undirbúa rýmingu fyrir fram svo unnt sé að komast í öruggt skjól í tæka tíð að því er segir í viðbragðsáætluninni.

Íbúar hafa knappan tíma til að yfirgefa heimili sín og þarf því að undirbúa rýmingu fyrir fram. Huga þarf vel að frágangi og hvað skuli taka með ef boð kynnu að berast um að gos sé að hefjast í Kötlu og vera meðvitaður um hvernig skuli skilja við búfé og gripahús.

Þar sem skammur tími gefst til rýmingar verður búfé ekki flutt burt fyrr en hættuástandi hefur verið aflýst en hverjum bæ fyrir sig ber að gera sína viðbragðsáætlun. Þá er ástæða til, vegna eldinga sem kunna að fylgja eldgosum sem þessum, að setja eldingavara á hús til að minnka líkur á að eldingum slái niður í þau. Þá skal koma sér upp viðlagakassa og koma fyrir í honum nauðsynlegum búnaði.

Neyðarlínan sendir út boð

Það eru vísindamenn sem upplýsa almannavarnir um það ef gos er að hefjast en þá virkja almannavarnir skipulag sitt og áætlanir. Hefst þá meðal annars rýming svæða og lokanir vega til að tryggja öryggi íbúa og annarra vegfarenda.

Neyðarlínan sendir þá íbúum með fasta búsetu og eigendum skráðra fasteigna á svæðinu boð frá almannavörnum með skilaboðum í farsíma og talskilaboða í fastlínusíma um að eldgos sé að hefjast í Kötlu, rýma skuli svæðið og gefa sig fram við fjöldahjálparstöð.

Kortið sýnir útbreiðslu jökulhlaups niður Sólheimasand, þann tíma sem tekur …
Kortið sýnir útbreiðslu jökulhlaups niður Sólheimasand, þann tíma sem tekur hlaupið að fara fram sandinn frá upphafi eldgoss, fjöldahjálparstöðvar og lokanir vega. /Almannavarnir

Þeir sem eru staddir á svæðinu frá Jökulsá á Sólheimasandi að Pétursey og fólk neðan bakka í Vík og að Múlakvísl skulu fara í leikskólann Suður-Vík. Þá skulu þeir sem staddir eru á svæðinu frá Múlakvísl að Kirkjubæjarklaustri gefa sig fram í Kirkjubæjarskóla.

Þá er Sólheimajökull einn vinsælasti skriðjökull landsins og vinsæll áfangastaður fjölda ferðamanna sem margir hverjir ganga á jökulinn. Í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum sagði landfræðingurinn Baldur Bergsson þann galla vera á viðbragðsáætlun að hún næði helst til heimamanna en ferðamenn geti þó einnig verið í hættu.

Frétt mbl.is: Hafa aðeins hálftíma til að forða sér

Katla gýs einu sinni til tvisvar á öld

Katla hefur gosið einu sinni til tvisvar á öld en eldgos í Kötlu eru gjóskugos með tilheyrandi gjóskufalli og þeim fylgja jafnframt jökulhlaup. Í Kötlugosum rennur því ekki hraun eins og gerist þegar gos verður á þurru landi. 

Vatnasvæði Kötlu eru þrjú og geta jökulhlaup komið niður Mýrdalssand, Sólheimasand eða Emstrur og Markarfljótsaura allt eftir staðsetningu eldgoss hverju sinni.

Jökulhlaup niður Mýrdalssand geta breiðst yfir allt svæðið vestan frá …
Jökulhlaup niður Mýrdalssand geta breiðst yfir allt svæðið vestan frá Múlakvísl, austur í Meðalland og norður að Hrífunesi. /Almannavarnir

Um Kötlugos í viðbragðsáætlun Almannavarna segir meðal annars að þau geti „varað í fáeinar vikur og gjóskan úr þeim getur borist afar langt allt eftir veðri og vindum. Eiturgufur fylgja eldsumbrotum og gjóskumökkurinn í nágrenni eldstöðvarinnar er mjög myrkur. Gosmekkinum fylgja eldingar sem getur slegið niður í fólk, skepnur og mannvirki í allt að 30-40 km fjarlægð frá eldstöðinni.“

Upplýsingar um viðbragðsáætlun eru ekki tæmandi í þessari frétt en ýtarlegri upplýsingar má nálgast á heimasíðu almannavarna. Þá er hægt að fá almennar upplýsingar í síma 1717.

Jökulhlaup niður Sólheimasand getur breiðst yfir svæðið milli Skóga og …
Jökulhlaup niður Sólheimasand getur breiðst yfir svæðið milli Skóga og Péturseyjar. /Almannavarnir
mbl.is