Öflug skjálftahrina í Kötlu

Öflug jarðskjálftahrina er nú í gangi í Kötlu í Mýrdalsjökli og urðu nokkrir öflugir jarðskjálftar nú í hádeginu sem allir mældust yfir þrjá að stærð. Að því er segir á vef Veðurstofunnar þá er virknin nú í hádeginu sú mesta í hrinunni til þessa og hefur litakóða Kötlu nú verið breytt úr grænu í gult, en guli liturinn merkir að eldstöðin sýnir merki um virkni umfram venjulegt ástand.

Jarðskjálftahrinan byrjaði í gærmorgun í eldstöðinni og hafa tæp­lega 200 skjálft­ar verið staðsett­ir í Kötlu síðasta sól­ar­hring­inn, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá jarðvár­sviði Veður­stofu Íslands.

Eng­inn gosórói hef­ur en verið mæld­ur á svæðinu, né heldur eru merki eru um jök­ul­hlaup.

Uppfært 12.55:

Alls mældust fjórir jarðskjálftar sem voru yfir 3 að stærð nú í hádeginu og mældist sá þeirra sem stærstur var 3,6 að stærð. Að sögn sérfræðings á vakt hjá jarðvársviði Veðurstofunnar hefur nú dregið úr virkni að nýju. Enn mælist þó stöðug smáskjálftavirkni í Kötlu þó engin merki finnist um gosóróa.

Fundur verður hjá vísindaráði Veðurstofunnar klukkan tvö og verður þá tekin afstaða til þess hvort auka eigi viðbúnað, m.a. með rannsóknarferðum inn að Kötlu.

Katla í Mýrdalsjökli.
Katla í Mýrdalsjökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina