Lambakjötið mengað af eiturefnum

Sigurbjörg Dís og Jón Haukur á brúðkaupsdaginn.
Sigurbjörg Dís og Jón Haukur á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Sigurbjörg Dís

Matur, sem borinn var fram í brúðkaupsveislu í Sandgerði í júlí í sumar þar sem tugir fengu matareitun, var lagaður á veitingahúsi í Reykjavík og fluttur á staðinn í hitakössum með ófullnægjandi hætti að mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Farsóttarfrétta Landlæknisembættisins sem kom út í dag. Þar segir að sóttvarnarlæknir hafi gert tilfellaviðmiðunarrannsókn í því skyni að finna hvaða matvæli brúðkaupsveislunnar gætu tengsl veikindum gestanna. Rætt hafi verið við 45 af 60 gestum og af þeim hafi 34 veikst.

Frétt mbl.is: Nær allir brúðkaupsgestir fengu matareitrun

Mbl.is ræddi í sumar við brúðhjónin, þau Sigurbjörgu Dís Konráðsdóttur og Jón Hauk Ólafsson, sem fóru hörðum orðum um veisluþjónustuna sem hefði eyðilagt brúðkaupsveisluna. Eigandinn, Magnús Ingi Magnússon, hefði brugðist illa við þegar þau hefðu kvartað yfir matnum og ekkert viljað koma til móts við þau.

„Ljóst var af einkennum þeirra brúðkaupsgesta sem veiktust og tímasetningu einkenna eftir neyslu matvælanna að hér var líklegast um að ræða matareitrun fremur en matarsýkingu. Líklegir orsakavaldar slíkra matareitrana eru Stapylococcus aureus, Bacillus cereus og/eða Clostridium perfringens,“ segir ennfremur í Farsóttarfréttum.

Þegar rannsóknin hafi farið fram hafi verið búið að farga öllum matvælunum nema súpunni. „Rannsókn á súpunni leiddi ekki í ljós orsakavaldinn, en líklegast er að lambakjötið hafi verið mengað af eiturefnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert