„Við verðum að gera eitthvað fyrir þau“

Frá samstöðufundinum á Ráðhústorginu á Akureyri í dag.
Frá samstöðufundinum á Ráðhústorginu á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Í dag mættu mjög margir, ég hugsa að það hafi verið yfir hundrað,“ segir enskukennarinn Khattab Omar Alomhammad, í samtali við mbl.is. Khattab og fjölskylda hans eru frá borginni Aleppo í Sýrlandi þar sem nú geisar stríð en þau hafa verið búsett á Akureyri frá því í janúar.

Khattab og fjölskylda hans auk nokkurra vina hafa komið saman síðastliðna fjóra laugardaga á Ráðhústorginu á Akureyri þar sem þau sýna samstöðu og mótmæla friðsamlega því hörmulega stríði sem ríkir í Sýrlandi. Á samstöðufundinum í dag fjölgaði þó talsvert í hópnum þegar ríflega hundrað manns bættust í hópinn og sýndu samstöðu að sögn Khattab.

„Einræðisherrar vinna aldrei.“
„Einræðisherrar vinna aldrei.“ mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vonast til að geta snúið aftur heim

„Við metum þetta mjög mikils og við vonum að öll saman getum við gert eitthvað fyrir þá sem eru í Sýrlandi og í Aleppo,“ segir Khattab en hann bindur vonir við að fjölskylda sín, sem og allir Sýrlendingar sem hafa þurft að flýja heimkynni sín, geti áður en langt um líður snúið aftur heim til Sýrlands.

„Það er ekki auðvelt að spá fyrir um það í náinni framtíð, en við vonum að við getum snúið til baka og hitt ættingja okkar og vini. Við skildum við allt sem við áttum í Sýrlandi, þar var okkar líf,“ útskýrir Khattab.

Ættingjar og nágrannar féllu í loftárásum

Undanfarið ár hafa Khattab og fjölskylda hans helst fengið fréttir af vinum sínum og ættingjum í gegnum Facebook eða frá aðgerðasinnum sem reyna að senda myndir og upplýsingar af því sem er að gerast í Aleppo.

Frétt mbl.is: Vita ekki um örlög ættingja og vina

„Við höfum fengið fregnir af því að ríkið hafi gert loftárásir á hverfið okkar. Nágrannar okkar og skyldmenni féllu í þeirri árás,“ segir Khattab sem telur tímabært að eitthvað verði að gert í málinu. „Allir í Aleppo eru systur mínar og bræður, við verðum að gera eitthvað fyrir þau.“ 

Móðir Khattabs býr einnig á Akureyri.
Móðir Khattabs býr einnig á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Khattab ítrekar þakklæti sitt og fjölskyldu sinnar fyrir þann stuðning sem þau hafa fundið fyrir á Íslandi og segir fjölskyldunni líka nokkuð vel á Íslandi. „Kannski fyrir utan veðrið er allt mjög gott,“ segir Khattab.

Biður okkur um að vera ekki sama

Ungir sem aldnir sýndu samstöðu með stríðshrjáðum í Sýrlandi á …
Ungir sem aldnir sýndu samstöðu með stríðshrjáðum í Sýrlandi á Ráðhústorginu á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Birgir Örn Guðjónsson birti í gær færslu á Facebook þar sem hann lýsir fyrirlestri sem hann sat í Háskólanum á Akureyri þar sem Khattab lýsti upplifun sinni og ástandinu í Sýrlandi. Færslu Birgis hefur verið deilt yfir 1.200 sinnum og vakið gríðarlega athygli og kveðst Birgir afar þakklátur yfir viðbrögðunum. 

Khattab var spurður að því hvað við gætum gert. Hvort við, almennir borgarar á litla Íslandi, gætum gert eitthvað sem skiptir máli. Það sem hann bað um var ekki flókið en engu að síður gífurlega mikilvægt. Hann bað okkur um að vera ekki sama. Hann bað okkur um að láta í ljós skoðun okkar um að við værum á móti stríðinu á Sýrlandi,“ segir Birgir meðal annars í færslunni sem mbl.is fékk leyfi Birgis til að birta:

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
„Allir hér vilja gera eitthvað, en að sjá allan þennan …
„Allir hér vilja gera eitthvað, en að sjá allan þennan fjölda koma saman í þessum litla bæ skiptir mig afar miklu máli,“ segir Khattab. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Fjölskyldan er þakklát fyrir samhug þeirra sem sýndu samstöðu í …
Fjölskyldan er þakklát fyrir samhug þeirra sem sýndu samstöðu í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is