Gengu út vegna ógreiddra launa

Verið er að reisa sjúkrahótel á lóð Landspítalans við Hringbraut.
Verið er að reisa sjúkrahótel á lóð Landspítalans við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Starfsmenn á vegum verktakafyrirtækisins G&M mættu ekki til vinnu í morgun vegna vanskila á launum. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurði Bessasyni, formanni Eflingar, snýst málið um ógreidd laun allt að þrjá mánuði aftur í tímann.

Fyrirtækið G&M er undirverktaki hjá LNS sögu og kemur starfsemi þess m.a. að framkvæmdum við Hlíðarenda, sjúkrahótel Landspítalans og Garðatorg. Sigurður segist hafa ákveðnar upplýsingar en að ekki liggi enn fyrir heildarmynd. „Mér er sagt að það séu í þessu máli einstaklingar sem ekki hafi fengið greidd laun í tvo til þrjá mánuði.“

Hann segir Eflingu fyrir stuttu hafa fundað með LNS Sögu og G&M vegna mála sem snerust um mismun á tímaskriftum og greiddum launum en að ekki hafi borist upplýsingar um vanskil fyrr en í gær.

„Við fengum fyrst ábendingu um þetta mál í gær. Það var þá mjög óljóst hvernig málin stæðu. Síðan fengum við meiri upplýsingar í dag og fórum þá á þessa vinnustaði til að skoða hvað var í gangi. Þá kom í ljós að á sumum þessara vinnustaða höfðu engir starfsmenn mætt. Á öðrum hafði hluti starfsmanna mætt til vinnu.“

Hann segir þá starfsmenn sem rætt hefur verið við ekki alla draga upp sömu mynd en um sé að ræða allt vanskil á launum í allt frá tveimur vikum upp í þrjá mánuði.

Sigurður segir að unnið sé að því að finna lausnir. „Við höfum verið í sambandi við LNS Sögu til að stíga inn í þetta mál og leysa það með okkur.“ Hann segir mikilvægt að finna endanlega lausn „svo að starfsmenn geti verið öryggir um að fá laun sín greidd.“

mbl.is