Hagsmunir rétthafa vegi þyngra

„Að taka og dreifa höfundarvörðu efni án heimildar grefur undan sköpun, framleiðslu og sýningu á nýju efni og eru rétthafar reiðubúnir til að hlusta á allar tillögur sem geta dregið úr skaðanum og sem raska ekki netfrelsi umfram það sem nauðsynleg er,“ segir í tilkynningu frá rétthöfum, sem Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, er í forsvari fyrir.

Tilefnið er umræða og ummæli um nýfallna dóma Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesta lögbann á þá starfsemi fjarskiptafyrirtækjanna Hringiðunnar og Símafélagsins að veita aðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay.

Frétt mbl.is: Dómur tók undir tilgangsleysi lögbanns

Frétt mbl.is: Héraðsdómur staðfestir lögbann vegna deildu og piratebay

„Héraðsdómur staðfestir að öllu leyti sjónarmið rétthafa í þessum málum og kemst að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að leggja lögbann á þá starfsemi að veita aðgengi að vefsvæðunum. Fjölskipaður héraðsdómur, sem auk héraðsdómara var skipaður tveim sérfróðum meðdómendum, staðfestir að til eru fleiri en ein aðferð til þess að framfylgja lögbanninu. Hin svonefnda DNS-aðferð sé  eigi að síður einföldust og árangursríkust,“ segir í tilkynningunni.

Margt þarf að gerast

„Rétthafar hafa aldrei haldið því fram að ekki sé hægt að komast fram hjá DNS-lokunum og hafa bent á að engin ein aðferð muni koma í veg fyrir höfundaréttarstuld.  Margt þarf að gerast til að árangur náist í þessum efnum, þ.m.t. fræðsla, framboð á miklu úrvali löglegs efnis á efnisveitum og virk réttarvernd.“

Í tilkynningunni segir að enginn vafi sé á því að lögbannið hafi áhrif. Rannsóknir og vefsíður sem mæla netumferð hafi staðfest það.

„Aðgerðirnar hafa jafnframt komið af stað umræðu og vakið fólk til umhugsunar. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að DNS-aðferðin er ekki gallalaus og gæti haft einhver truflandi áhrif á internetið.  Þau neikvæðu áhrif hafa hins vegar aldrei verið mæld og aldrei hefur verið lagt fram neitt því til sönnunar að netöryggi hafi verið ógnað með slíkum lokunum. Dómurinn staðfestir að hagsmunir rétthafa vegi þyngra en þessir óljósu hagsmunir, sem kenndir hafa verið við netfrelsi,“ segir í tilkynningunni.

Frelsi háð takmörkunum

„Hér er rétt að hafa í huga það augljósa að allt frelsi er háð takmörkunum, t.d. tjáningarfrelsi. Allt frelsi takmarkast almennt af ríkari hagsmunum annarra, að þeir skaðist ekki af frelsinu. Sem betur er t.d. „umferðarfrelsi“ miklum takmörkunum háð.  Hvers vegna skyldi það ekki líka gilda um hið svokallaða netfrelsi?  Barátta rétthafa beinist gegn ólögmætri starfsemi og vandséð hvaða hagsmunir eru faldir í því að viðhalda eða vernda þá starfsemi.

Forsvarsmenn fjarskiptafyrirtækjanna hafa lýst yfir stuðningi við rétthafa í baráttu þeirra gegn ólögmætri dreifingu höfundaréttarvarins efnis. Því ber svo sannarlega að fagna.  Þeirra hugmyndir um aðrar baráttuaðferðir sem lúta að því að sækja skaðabætur eða refsingar á hendur þeim sem standa beint að dreifingunni eru hins vegar óraunhæfar.  Í það minnsta hafa tilraunir til þess lítinn sem engan árangur borið hingað til.  Það hafa rétthafar ítrekað bent á og dómstólar hafa tekið undir þá staðreynd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert