Gögnin ekki frá slitabúinu

Steinunn Guðbjartsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar Glitnis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Steinunn Guðbjartsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar Glitnis, segir að upplýsingar um verðbréfaviðskipti Hæstaréttardómara sem fjallað var um í gær séu ekki frá slitastjórninni komin. Í umfjöllun um viðskiptin á Stöð 2 kom fram að stuðst væri við gögn frá slitastjórninni sem Stöð 2 hefði undir höndum.

„Ég kannast ekki við að þessar upplýsingar hafi komið inn á borð hjá okkur. Þetta eru ekki gögn sem hafa komið frá okkur eða hafi verið til einhverrar skoðunar eða slíkt í þann tíma sem slitameðferð búsins stóð yfir,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Uppfært kl 15:13:

Hjá Eddu Hermannsdóttur, upplýsingafulltrúa Íslandsbanka, fengust þau svör að bankinn væri að skoða málið að svo stöddu.

„Við höfum enga ástæðu til að ætla að gögnin komi frá okkur. Bankinn er ekki eini aðilinn sem hefur haft þessi gögn.“ Spurð hvort bankinn muni ráðast í innri rannsókn segir hún að málið sé á fyrstu stigum og það verði skoðað nánar síðar.

mbl.is