Von á áhættumatinu eftir áramót

Mjaldur er smávaxinn hvalur sem ekki verður nema 1.000-1.200 kg.
Mjaldur er smávaxinn hvalur sem ekki verður nema 1.000-1.200 kg. Wikipedia/Greg Hume

Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, staðfestir að fyrirtækið Merlin Enter­tainments hafi verið í sambandi við Þekkingarsetrið vegna möguleikans á að þremur mjöldrum sem eru í dýragarði í eigu fyrirtækisins í Sjanghæ, verði komið fyrir í kvíum við  Vestmannaeyjar. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

„Þeir eru búnir að vera í sambandi við okkur, en við erum bundnir trúnaði,“ segir Páll Marvin. Þó nokkuð sé síðan fyrst var haft samband við Þekkingarsetrið, en vinna á borð við þessa sé alltaf tímafrek.

Páll Marvin segir Vestmannaeyinga búa yfir reynslu af að halda hvali með góðum árangri og segir vissulega einhverja Eyjamenn enn búa yfir reynslu af samstarfinu við teymi Keikós á sínum tíma. Kvíin sem Keikó dvaldi í verði hins vegar ekki notuð, ef svo fer að mjaldrarnir flytja búferlum til Vestmannaeyja.

Óskuðu eftir fundi með ráðuneytinu

Gísli Jónsson dýralæknir fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun (MAST), segir stofnunina hafa fengið óformlega beiðni frá Merlin Entertainments fyrir um ári síðan. Málinu hafi þá verið komið í ferli og í maí hafi lögfræðingur Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sent Merlin Entertainments bréf um að málið sé komið til formlegrar skoðunar, en að krafa sé gerð um að fyrirtækið skili in svokölluðu áhættumati líkt og lög um náttúruvernd og innflutning dýra kveða á um.

„Þeir höfðu síðan nýlega samband og óskuðu eftir fundi í ráðuneytinu og lýstu yfir áhuga, þannig að ég fékk á tilfinninguna að áhættumati yrði skilað inn fljótlega eftir áramót,“ segir Gísli.

Mjaldrarnir þrír, eða hvíthvalir eins og þeir eru einnig nefndir, dvelja nú í Sea Life garðinum í Shanghæ, sem einnig er þekktur undir nafninu Changfeng Ocean World og eru að rúmlega 10.000 sjávarlífverur af 300 ólíkum tegundum í garðinum. Engar upplýsingar er að finna um garðinn á vefsíðu Merlin Entertainment, en styr hefur staðið um velferð sýningardýra í garðinum, m.a. mjaldranna, sem Merlin Entertainment hefur leitað eftir nýjum heimkynnum fyrir frá því fyrirtækið keypti garðinn árið  2012.

Grunnur að þekkingu til staðar

Gísli sem tók þátt í flutningum Keikós til Íslands á sínum tíma, segir grunn að þekkingu varðandi meðhöndlun hvala til staðar í Vestmannaeyjum. „Keikó var hér í rúm 4 ár. Honum fylgdi 6-10 manna teymi, en þjálfarar hans voru líka búnir að koma sér upp teymi manna úti í Eyjum sem voru farnir að kunna handbrögðin, sérstaklega hvað varðar fóðrun, köfun, umhirðu og  annað slíkt. Þannig að grunnur að þekkingu enn til staðar,“ segir hann.

Mjaldurinn er flæking hér við land að sögn Gísla. „Þeir eru því ekki framandi tegund hér, þó þeir séu sjaldgæfir,“ segir hann. Mjaldurinn sé því ekki líklegur til að valda skaða á íslensku vistkerfi, né heldur til að flytja með sér sjúkdóma. Þá séu mjaldrarnir minni en Keikó var. Þeir verði ekki mikið stærri en eitt tonn af stærð, á meðan að háhyrningar á borð við Keikó verði um þrjú tonn. Gísli telur því að vel ætti að fara um mjaldrana í kví í nágrenni Vestmannaeyja.

Dýravelferð er því að hans sögn höfuðmálið varðandi það hvort leyfi verði veitt fyrir flutningi mjaldranna til landsins. Sjálfur tók Gísli þátt í flutningnum á Keikó hingað til lands árið 1998 og veit því vel hversu erfiður slíkur flutningur er fyrir hvali. „Flutningurinn var til að mynda gífurlegt álag fyrir Keikó þó að vel hafi verið búið að honum á allan hátt,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert