„Hófsamur í minni bjartsýni“

Spjaldmynd af Óttarri Proppé og Benedikt Jóhannesson
Spjaldmynd af Óttarri Proppé og Benedikt Jóhannesson Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar segir að viðræður á milli Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Bjartar framtíðar séu ekki komnar á það stig að hægt sé að segja af eða á með það hvort flokkarnir muni ganga formlega til stjórnarmyndunarviðræðna. Flokkarnir hafi þegar hist í tvígang og því ætti það ekki að taka langan tíma að mynda stjórn ef úr verður á annað borð. 

„Við höfum ekkert hist síðan í fyrradag og það hafa ekki verið boðaðir fundir. Ég býst við því að við munum hittast einhvern tímann, en menn eru svolítið út og suður um þessar mundir,“ segir Benedikt.

Ættu að geta sagt af eða á fljótlega 

Spurður segir Benedikt að menn hafi verið að skiptast á skoðunum en vill ekkert tjá sig um það hvort að einhverjar málamiðlanir séu á borðinu sem menn séu að íhuga. „Þetta er ekki komið á það stig en málin fara vonandi að skýrast fljótlega,“ segir Benedikt.

Hann segir að flokkarnir hafi hist í tvígang og því ætti það ekki að taka langan tíma að mynda stjórn ef úr verður á annað borð. Hins vegar hafi menn ekki sett sér neinn sérstakan tímaramma. „Vonandi förum við að geta komist á þann stað fljótlega að við getum sagt af eða á hvort að eitthvað verði úr þessu. Ég er orðinn svo margbrenndur á viðræðum sem ekkert hefur orðið úr og er því hófsamur í minni bjartsýni,“ segir Benedikt.

mbl.is