Skemmdirnar brot á lögum um menningarminjar

Ak­ur­eyr­ar­kirkja er húðuð með skeljasandi og því geng­ur illa að …
Ak­ur­eyr­ar­kirkja er húðuð með skeljasandi og því geng­ur illa að ná krot­inu af veggj­um henn­ar. Í skoðun er að setja upp eft­ir­lits­mynda­vél­ar við kirkj­una. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Illa hefur gengið að þrífa krot af veggjum Akureyrarkirkju. Greint var frá því í morgun að skemmdarverk hefðu verið unnin í nótt á fjórum kirkjum á Akureyri og varð Akureyrarkirkja þeirra verst úti, en framhlið og suðurhlið kirkjunnar eru útkrotaðar.

„Það er verið að íhuga næstu skref,“ segir séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Segir hann þau efni sem notuð eru til að þrífa af úðamálningu skemma kirkjuna sem er með skeljasandshúð. „Þannig að þetta er erfitt viðureignar.“

Verið er að reyna að ná krotinu af kirkjunni og …
Verið er að reyna að ná krotinu af kirkjunni og var m.a. prófað að spreyja efni yfir krotið, en erfitt er að hreinsa skeljasandinn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Frétt mbl.is: Skemmdarverk unnin á 4 kirkjum á Akureyri

Skoða að setja upp eftirlitsmyndavélar

Rúnar Leifsson, minjavörður Norðurlands eystra, hefur vakið athygli á því að ytra borð Akureyrarkirkju er friðlýst og teljast skemmdirnar því vera brot á lögum um menningaminjar.

Svavar segir fyrir vikið mega líkja skemmdunum á kirkjunni við þær sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa staðið fyrir á menningarminjum í Sýrlandi. „Þó að þetta sé ekki jafnóafturkræft þá er þetta sama eðlis, þarna er verið að eyðileggja menningarverðmæti,“ segir hann.

Engar eftirlitsmyndavélar eru við Akureyrarkirkju og segir Svavar nú vera í umræðunni hvort ekki þurfi að setja upp slíkar vélar, en skemmdarverk hafa verið unnin á kirkjunni næstum árlega undanfarin ár.

Ytra byrði Akureyrarkirkju er friðað og því varða skemmdirnar við …
Ytra byrði Akureyrarkirkju er friðað og því varða skemmdirnar við lög. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skemmdirnar verða hins vegar ekki fjarlægðar fyrir jarðarförina sem þar fer fram nú síðdegis. „Við erum búin að tala við aðstandendur og þau ætla bara að halda sínu striki og láta þetta ekki á sig fá. Þetta var mikill sómamaður sem við ætlum að kveðja í dag og við ætlum bara að gera það og láta þetta ekkert slá okkur út af laginu.“

„Vonum að þetta sé bara eitt stakt tilfelli“

Öllu betur gekk að þrífa Péturskirkju, sem er kirkja kaþólska safnaðarins á Akureyri, en þar hafði m.a. verið spreyjað á kirkjuhurðina á ensku orðin „Satan, God no escape“.

„Ég fór og keypti sellulósaþynni og var fljótur að ná þessu af. Þetta er timburkirkja og hún er máluð þannig að það er tiltölulega auðvelt að þrífa hana,“ segir Hjalti Þorkelsson, sóknarprestur Péturskirkju.

Péturskirkja, kirkja kaþólska safnaðarins á Akureyri, varð einnig fyrir skemmdum.
Péturskirkja, kirkja kaþólska safnaðarins á Akureyri, varð einnig fyrir skemmdum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann segir aldrei hafa komið upp sambærilegt mál þann tíma sem hann hefur starfað í kirkjunni. „Ég hef verið hér á sjöunda ár og það hafa aldrei komið upp nein vandamál. Kirkjan hjá okkur er alltaf opin allan daginn og það hefur aldrei neitt slæmt gerst,“ segir hann. „Við vonum að þetta sé bara eitt stakt tilfelli.“

Hjalti segir skemmdarverkin þó greinilega hafa verið skipulögð þar sem krotað hafi verið á fjórar kirkjur sem séu í ólíkum bæjarhlutum. „En maður hugsar bara sem svo að þarna sé einhver rugluð manneskja á ferð sem þarf athygli og það þarf bara að leysa málið og vonandi gerist þetta ekki aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert