Gera aðra úttekt á gúmmíkurli í Kórnum

Kórinn í Kópavogi.
Kórinn í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstaða úttektar á gúmmíkurli á knattspyrnuvellinum í Kórnum var verri en upphaflega var talið. Niðurstöðurnar gefa tilefni til þess að fá úr því skorið með frekari rannsókn hvort að ástæða sé til þess að skipta út gúmmíkurlinu. Þetta er niðurstaða úttektar sem barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar HK lét gera á gúmmíkurlinu. 

Kópavogsbær var upplýstur um niðurstöðu úttektarinnar sem lá fyrir í desember. Í kjölfarið fól Kópavogsbær Heilbrigðiseftirlitinu að gera frekari mælingar á gúmmíkurlinu. Niðurstaða úr þeim mælingum liggur ekki fyrir. 

„Við vildum láta kanna þetta nánar vegna umræðunnar um dekkjakurl. Við viljum vera viss um að börnin okkar æfa við öruggar aðstæður,“ segir Kjartan Briem, formaður barna- og unglingaráðs HK. 

Mik­il umræða hef­ur skap­ast um notk­un dekkjak­urls á gervigrasi vegna skaðlegra efna í því. Ekki hef­ur þó tek­ist að sýna fram á or­saka­sam­band á milli notk­un­ar dekkjak­urls og heilsu­brests. Rann­sak­end­ur hafa ekki úti­lokað að svo geti verið. 

Víða um land hefur verið skipt um gervigras á sparkvöllum við skólum og á gervigrasvöllum íþróttafélaga. Á síðasta ári var skipt um gervigras á öllum sparkvöllum við grunnskóla Kópavogs.  

mbl.is