Hafna beiðni um endurupptöku Al Thani-málsins

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. mbl.is/Árni Sæberg

End­urupp­töku­nefnd hefur hafnað beiðni Magnúsar Guðmunds­sonar, fyrr­ver­andi for­stjóra Kaupþings í Lúx­em­borg, um end­urupp­töku á Al Thani-mál­inu.

Magnús var dæmd­ur í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi í Hæsta­rétti fyr­ir aðild sína að málinu, fyrir rúmum tveimur árum.  Hreiðar Már var þá dæmd­ur í fimm og hálfs árs fang­elsi, Ólaf­ur Ólafs­son í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi og Sig­urður Ein­ars­son í fjög­urra ára fang­elsi.

Nefndin hefur áður hafnað beiðnum Hreiðars Más, Sig­urðar og Ólafs um að mál þeirra verði end­urupp­tekið í Hæsta­rétti Íslands. Nú er því svo komið að öllum beiðnum um endurupptöku Al Thani-málsins hefur verið hafnað.

Magnús var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.
Magnús var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg. mbl.is/Ómar

Sagði sönnunarmat Hæstaréttar rangt

Beiðni sína um endurupptöku hafði Magnús reist á því að verulegar líkur væru á því að sönnunargögn, sem færð hefðu verið fram í málinu, hefðu verið rangt metin, auk þess sem verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins.

Segir þannig í endurupptökubeiðninni að Magnús telji að Hæstiréttur hafi metið sönnunargögn með röngum hætti þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að Magnús hafi veitt fyrirmæli, ásamt Hreiðari Má, um lán til félagsins Brooks Trading Ltd.

Í öðru lagi hafi sönnunarmat réttarins verið rangt þegar hann taldi að Magnúsi hafi mátt vera ljóst að borin von væri að framkvæma mætti fyrrgreind fyrirmæli um lánveitinguna með hætti sem samrýmanleg væru verklagsreglum bankans.

Í þriðja lagi að tilteknar ráðstafanir, sem Kaupþing hafi gert í tengslum við lánið og sneru að félaginu Brooks Trading Ltd., hafi ekki haft tryggingargildi fyrir bankann.

Í öllum ofangreindum tilvikum hafi Hæstiréttur þannig metið sönnunargögnin vitlaust. Þá byggði beiðnin einnig á því að Hæstiréttur hafi ekki fjallað um tiltekin gögn og þannig ekki tekið afstöðu til þeirra eða hafi yfirsést þau.

Frá aðalmeðferð Al Thani-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá aðalmeðferð Al Thani-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

„Óli“ var Ólafur Ólafsson

Í úrskurðinum er þessum málsrökum Magnúsar svarað á þann hátt að ekki verði annað séð en að Hæstiréttur hafi, í sínu heildarmati á sönnunargögnum, tekið tillit til og fjallað um þau atriði sem Magnús færði fram til stuðnings kröfu sinni um endurupptöku.

Telja verður að Hæstiréttur geti fjallað um heildarmat sitt á sönnunargögnum án þess að krafa verði gerð til réttarins um að hann fjalli um hvert einstakt gagn sem liggur frammi í málinu og hvaða ályktanir rétturinn kann að draga af því,“ segir meðal annars í úrskurðinum.

Þá vísar nefndin til fyrri úrskurða sinna, í málum Hreiðars Más, Sigurðar og Ólafs, hvað varðar þá málsástæðu Magnúsar sem lýtur að símtali Bjarnfreðs Ólafssonar og Eggerts J. Hilmarssonar.

Var niðurstaða endurupptökunefndar sú að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að sá „Óli“ sem Bjarnfreður kallar svo, og Eggert kallar Ólaf, væri Ólafur Ólafsson, sá sem ákærður var ásamt Magnúsi í Al Thani-málinu.

Dómur Hæstaréttar féll í febrúar 2015.
Dómur Hæstaréttar féll í febrúar 2015.

Dómararnir ekki vanhæfir

Nefndin fjallar einnig um þá málsástæðu Magnúsar, að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins.

Í beiðninni voru gallarnir annars vegar sagðir felast í vanhæfi tveggja dómenda Hæstaréttar, þeirra Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar, og hins vegar því að ekki hafi verið rétt staðið að símahlustun eða húsleit og í því sambandi ekki gætt að stöðu hans sem sakbornings í málinu.

Vísar nefndin aftur til fyrri úrskurða sinna þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að dómararnir hefðu ekki verið vanhæfir. Ekki er þá fallist á það að Magnús hafi haft réttarstöðu sakbornings þegar tekin var vitnaskýrsla af honum 19. júní 2009.

„Fram er komið að endurupptökubeiðandi fékk stöðu sakbornings þegar símahlustanir og húsleitir voru framkvæmdar en það hafi fyrst verið eftir skýrslutökuna 19. júní 2009.

Nefndinni þykir Magnús þannig ekki hafa sýnt fram á að skilyrði lagaákvæðis um endurupptöku séu uppfyllt og beiðninni því hafnað.

Fær ekki ákveðna þóknun fyrir lögmann

Athygli vekur að í úrskurði nefndarinnar segir að skilyrði til að ákveða þóknun vegna starfa lögmanna fyrir endurupptökubeiðandann, Magnús, séu ekki uppfyllt.

Hafði hann lagt fram fyrir nefndina yfirlit yfir kostnað vegna vinnu lögmanna í tengslum við málið, en nefndin tekur fram að hann hafi ekki óskað eftir að honum væri skipaður lögmaður og skilyrði til að ákveða þóknun því ekki uppfyllt.

mbl.is