Voru menn að kaupa sér vinsældir?

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Mér finnst persónulega að ef Alþingi ákveður að þenja út samgönguáætlun tveimur vikum fyrir kosningar hafi það auðvitað þau áhrif að auka vinsældir þeirra flokka sem eru á þingi á kostnað þeirra flokka sem eru það ekki,“ sagði Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

Voru ummæli Benedikts Jó­hann­es­son­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðherra sem hann lét falla á Bylgj­unni í gær­morg­un til umræðu. Þar sagði ráðherra að samþykkt Alþingis á samgönguáætlun í október síðastliðnum hefði verið ófjármögnuð, skapað rangar væntingar og það hefði nánast verið siðlaust af síðasta þingi.

Pawel bætti við að honum þættu slík vinnubrögð ekki til eftirbreytni. „Sérstaklega ef einhverjir þingmenn, og þeir verða að taka það til sín sem eiga, hafa í huga að hugsanlega verði ekki staðið við það sem þar er. Það taka þeir til sín sem eiga. Við slíkar aðstæður finnst mér það ekki til eftirbreytni en verð að leyfa hæstvirtum fjármálaráðherra að svara fyrir orðaval sitt, við hvernig hann orðar það,“ sagði Pawel.

„Ég get ekki orða bundist“

Steinunn Þóra Árnadóttir úr VG gagnrýndi Pawel harðlega. „Ég get ekki orða bundist eftir síðustu ræðu því að hæstvirt Alþingi er komið út á mjög svo hættulega braut ef þeir sem á eftir koma eru ekki bundnir af neinu af því sem gert hefur verið á undangengnum þingum,“ sagði Steinunn.

Þá hljótum við öll að íhuga það hvort það sé taktískt rétt — ef við viljum fá áherslubreytingar á einhverju sem samþykkt hefur verið, eigum við þá bara að leggja okkur niður og bjóða okkur fram í krafti nýs nafns og nýs stjórnmálaflokks? Þannig getum við auðvitað ekki starfað hérna,“ bætti Steinunn við.

Ekki hluti af pólitískum leik

Ásta Guðrún Helgadóttir Pírati sagðist varla geta orða bundist vegna ummæla Pawels og spurði hvort hann gerði sér grein fyrir ástandi vegakerfisins. „Þetta er andvaraleysi, tilvistarkreppa, þetta er nýfrjálshyggja ríkisstjórnarinnar sem vill ekki setja skattana, vilja ekki eyða í það sem er sameiginlegt,“ sagði Ásta.

Vegakerfið er sameiginlegt, það var ekki hluti af pólitískum leik eða popúlisma sem við fórum í þá aðgerð að setja aukalega 10 milljarða í samgönguáætlun, þannig að ég frábið mér svona orðalag og svona ummæli,“ bætti Ásta við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert