Neyðarhnappinum úthlutað í fáum tilfellum

Í um 20 af þeim 25 tilfellum sem lögregla hefur …
Í um 20 af þeim 25 tilfellum sem lögregla hefur úthlutað neyðarhnappi, hefur það verið vegna heimilisofbeldis. mbl.is/Árni Torfason

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur látið brotaþola fá neyðarhnapp í 25 tilvikum frá því í janúar 2015 og var um heimilisofbeldi að ræða í um 20 málanna samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá lögreglu. 

11 fengu slíkan hnapp árið 2015, 12 í fyrra og tveir hafa fengið neyðarhnapp það sem af er þessu ári.

Greint hefur verið frá því að fyrrverandi eiginkonu mannsins, sem hand­tek­inn var í Aust­in höfuðborg Texas í Banda­ríkj­un­um í síðustu viku vegna gruns um að hafa ráðist á ís­lenska kær­ustu sína, hafi verið afhentur neyðar­hnapp­ur eftir að hún og maðurinn slitu samvistum.

Staðfesti mágur konunnar í samtali við mbl.is í gær að hún hefði fengið lögreglufylgd til að yfirgefa heimili sitt, eftir að hún fann styrk til að slíta samvistum við manninn.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir lögreglu ekki tjá sig ekki um einstök mál. Hún segir þó neyðarhnapp vera afhentan ef lögreglan telur hættu á endurteknum atvikum. Þá sé það einnig gert ef brotaþola finnst öryggi sínu ógnað. „Þá er slíkur hnappur gefin til að veita viðkomandi öryggi til að halda áfram,“ segir hún.

Neyðarhnappur kemur við sögu í miklum minnihluta heimilisofbeldismála. „Frá því að við byrjuðum á núverandi verklagi í þessum málaflokki, þá hafa um 700 mál á ári verið skilgreind sem heimilisofbeldi og þannig að þetta eru hlutfallslega fá tilvik af þeim,“ segir Alda Hrönn.

„Samkvæmt erlendri tölfræði þá er neyðarhnappurinn sjaldan notaður, en hann er þó bæði forvörn þannig að ekki sé verið að áreita viðkomandi og svo veitir hann líka öryggi,“ segir Alda Hrönn og bætir við að neyðarhnappurinn sé bara eitt af mörgum úrræðum sem lögregla nýti.

20 neyðarhnappar eru nú í notkun, en samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglunnar þá er það ekki endilega lýsandi fyrir málafjöldann. Í einhverjum tilfellum hafi mögulega gleymst að skila hnappinum og í öðrum tilfellum þá veiti það viðkomandi öryggi að hafa hnappinn áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert