„Dregin upp leiktjöld“ við sölu bankans

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins og hefur verið bent á þá finnst mér líka mjög dapurlegt að við séum að komast til botns í þessu árið 2017, næg hafa tilefnin verið fram til þessa,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um rannsóknarskýrsluna um sölu Búnaðarbankans.

Bjarni var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni á Stöð 2 í hádeginu í dag þar sem Heimir Már ræddi meðal annars við Bjarna um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu Búnaðarbankans og nýlega sölu hluta í Arion banka.

Vogunarsjóðir ekki ákjósanlegir langtímafjárfestar

„Ég er að bíða eftir skýringum á því eins og aðrir hverjir þetta eru,“ sagði Bjarni um nýafstaðna sölu á hlutum í Arion banka. Sagði hann það þó vera heilbrigðismerki ef bankinn væri að færast í áttina að því að verða skráður á markað. Aftur á móti væri mikilvægt að vita hvaða aðilar stæðu að baki kaupunum og hverjar fyrirætlanir þeirra raunverulega væru.

Kvaðst forsætisráðherrann sammála áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að vogunarsjóðir væru ekki ákjósanlegir fjárfestar til langs tíma. Aftur á móti þegar bankar væru skráðir á markað gengju þeir kaupum og sölum en að mati Bjarna þyrfti það ekki að vera stórfrétt hverju sinni.

Það er eingöngu þegar menn fara yfir ákveðin viðmiðunarmörk, og mér finnst að það eigi að vera hluti þessarar umræðu hvar þau eigi að liggja, sem menn sem sagt þurfa að gera betur grein fyrir sér og sýna fram á að þeir séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut,“ sagði Bjarni.

Dregin upp leiktjöld við sölu Búnaðarbankans

Spurður hvort það hafi komið honum á óvart hvernig fléttan raunverulega var við sölu Búnaðarbankans á sínum tíma og hvort hann teldi menn hafa þar leikið óheiðarlegan leik, sagði Bjarni svo vera.

„Það er mín upplifun já, að þarna hafi verið dregin upp einhver leiktjöld til að láta líta þannig út að menn væru með breiðari hóp, væru með fjölbreyttara og dreifðara eignarhald,“ sagði Bjarni. Þá sé margt fleira sláandi að finna í rannsóknarskýrslunni, til að mynda það að svo virðist sem lánað hafi verið fyrir kaupunum að stærstum hluta.

„Og maður spyr sig, án þess að hafa skoðað það nákvæmlega, hvaða innistæða var fyrir þessum lánum? Kemur allt of lítið eigið fé inn í kaupin?“ bætti Bjarni við.

Þá væri ekki hægt að horfa fram hjá því að það væri gagnrýnivert að ráðgjafar stjórnvalda við söluna á sínum tíma skyldu ekki hafa gengið betur úr skugga um hver áform þeirra aðila sem keyptu bankann raunverulega voru.

„Það skipti máli hvert hlutirnir færu og þetta þurftu að vera kjölfestufjárfestar og það var svona ákveðin einkunnagjöf sem var til grundvallar ákvörðunar í þessum efnum,“ sagði Bjarni.

Spurður sagði Bjarni jafnframt að varpa mætti gagnrýni á störf þeirra erlendu banka sem að málinu komu, til að mynda HSBC, í tengslum við val á kaupendum og bakgrunnsathugun. Þetta er niðurstaðan, þarna voru menn hreinlega bara með tjöld, leiktjöld, uppi til þess að sýnast vera að gera annað heldur en var undir yfirborðinu.“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á enn eftir að tjá sig um …
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á enn eftir að tjá sig um mögulega rannsókn á sölu Landsbankans. mbl.is/hag

Telur óljóst hvað eigi eftir að skoða

Loks spurði Heimir Bjarna hvort hann teldi ástæðu til að skoða frekar söluna við einkavæðingu Landsbankans eins og verið hefur til umræðu. Sagði Bjarni að hann og hans flokkur hefðu stutt það en óljóst væri þó hvað stæði enn út af í þeim efnum.

Við höfum stutt það, við studdum það í þinginu 2012 og gerðum það aftur í fyrra, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að taka til athugunar hvað stæði út af í málinu," sagði Bjarni. Í raun sé það mál enn til skoðunar hjá nefndinni í dag og hún eigi eftir að komast að niðurstöðu um það.

Ég vil gera allt sem við getum til þess að eyða tortryggni, eyða öllum vafa um það hvað raunverulega átti sér stað, til þess að við getum endurheimt traust,“ segir Bjarni, „Spurning mín er bara þessi, eftir allt saman; hvað stendur út af?“

Spurður að því hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi setja sig á móti rannsókn á sölu Landsbankans, kæmist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þeirri niðurstöðu að tilefni væri til þess, segir Bjarni svo ekki vera.

Nei, að sjálfsögðu ekki. Ég myndi hins vegar vilja forðast það að við værum að fara í miklar endurtekningar,“ útskýrði Bjarni. „Það stendur alls ekki á mér að láta skoða það sem út af stendur en ég hef ekki alveg heyrt nægilega skýrt, hvað það er sem á eftir að skoða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert