Stal sjálfum sér

Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður.
Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður. RAX,Rax / Ragnar Axelsson

Ný heimildarmynd eftir Valdimar Leifsson, Hans Jónatan – maðurinn sem stal sjálfum sér,
verður frumsýnd á Djúpavogi 19. apríl næstkomandi. Þar er hermt af fyrsta litaða manninum
sem talið er að hafi sest að á Íslandi í upphafi nítjándu aldar og farið á söguslóðir hans.

Meðan Gísli Pálsson prófessor vann að bók sinni um Hans Jónatan, sem kom út árið 2015, fór hann að velta fyrir sér að áhugavert gæti verið að gera heimildarmynd um sögu hans. Hafði hann í þeim tilgangi samband við Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmann, en þeir höfðu áður unnið saman. „Ég var honum strax sammála um að þetta gæti orðið ævintýraleg mynd, jafnvel að hluta til leikin, og tók verkefnið að mér,“ upplýsir Valdimar, en það var eiginkona hans, Bryndís Kristjánsdóttir, sem skrifaði handritið.

Á þeim tíma þekkti Valdimar lítið sem ekkert til Hans Jónatans en vissi þó að Djúpivogur hefði í eina tíð verið kallaður Litla-Kongó, vegna þess hversu dökkir yfirlitum margir íbúar staðarins voru. „Því meira sem ég las, þeim mun áhugaverðari varð þessi maður og saga hans.“
Eftir tvö nei frá Kvikmyndasjóði Íslands blés hins vegar ekki byrlega fyrir verkefninu. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og afkomendur Hans Jónatans, sem höfðu haft veður af myndinni, ákváðu að stofna sjóð til að greiða fyrir gerð hennar. Fyrir vikið gat Valdimar lagt í’ann.

Kann hann afkomendunum, sem teljast nú yfir 1.000, að vonum bestu þakkir fyrir, en þar sem Kvikmyndasjóður afréð að sitja hjá þurfti Valdimar að skera kostnað talsvert niður, meðal annars fórna leikna hlutanum að mestu. „Til að byrja með ætlaði ég að gera þrjá hálftíma þætti en þetta endaði í einni klukkustundarlangri mynd.“ 

Hann segir gerð myndarinnar hafa verið ofboðslega skemmtilega; ekki síst að kynnast afkomendum Hans Jónatans, en hópur þeirra fór með þeim Gísla, sem er sögumaður í myndinni, á söguslóðir hans á St. Croix. „Það var dásamleg ferð og ættingjarnir höfðu mikla ánægju af þessu, en við fengum bandarískan sagnfræðing til að lóðsa okkur um alla eyjuna og sýna okkur staðina sem komu við sögu í lífi Hans Jónatans,“ segir Valdimar.

Nánar er rætt við Valdimar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Einnig má hér skoða stiklu úr myndinni. 

Edda Björnsdóttir og George Leite í hlutverkum Hans Jónatans og …
Edda Björnsdóttir og George Leite í hlutverkum Hans Jónatans og Katrínar eiginkonu hans á Djúpavogi.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert