Tveir Þjóðverjar í Þistilfirði

Björn og Christian eru alsælir í sveitasælunni í Þistilfirði og ...
Björn og Christian eru alsælir í sveitasælunni í Þistilfirði og geta alveg hugsað sér að setjast þar að.

Sólgarður, gamalt hús við sjávarsíðuna á Þórshöfn má muna sinn fífil fegurri. Lítið hefur verið um það hirt í áranna rás, en nú stendur allt til bóta. Rúmlega tvítugir Þjóðverjar, Björn Müller og Christian Bleydorn, keyptu húsið þar sem þeir hyggjast hreiðra um sig, jafnvel til frambúðar, og eru þegar farnir að taka til hendinni.

Íslandsheimsókn þess fyrrnefnda má rekja til auglýsingar á netinu um aðstoð á bóndabýli í Þistilfirði.

Af fjölda umsókna hvaðanæva úr heiminum um starf aðstoðarmanns á búinu Syðra-Álandi, leist þeim Karen Rut Konráðsdóttur og Ólafi B. Vigfússyni, best á bréf Björns Müller, rúmlega tvítugs þýsks háskólanema.

Sólgarður. F.v.: Björn, Karen og Ólafur ásamt dóttur sinni, Ásu ...
Sólgarður. F.v.: Björn, Karen og Ólafur ásamt dóttur sinni, Ásu Rut, og Christian fyrir framan Sólgarð.


„Bréfið frá Birni vakti áhuga okkar og við ákváðum að bjóða honum að koma, sem hann þáði og kom skömmu seinna. Hann smellpassaði inn í fjölskylduna og við urðum öll mjög góðir vinir því þarna var hress og skemmtilegur Þjóðverji á ferð.“

Björn, sem er frá norðvesturhluta Þýskalands, hafði ákveðið að hvíla sig á háskólanáminu og prófa eitthvað nýtt svo auglýsingin frá Karen og Ólafi var eins og sniðin fyrir hann. Auk þess hafði hann áhuga á Íslandi, ekki síst vegna þess að systir hans hafði áður verið í eitt ár á Selfossi en hún dvelur núna á sveitabæ í Þistilfirði.

Björn mætti til Karenar, Ólafs og dætranna þriggja að Syðra-Álandi á háannatíma í sveitinni síðastliðið vor. Hann segir tímann hafa liðið hratt og hann hafi verið vel nýttur. „Þótt mikið væri að gera fór ég í skemmtilegar ferðir með fjölskyldunni, heimsótti ferðamannastaði eins og Ásbyrgi og Mývatn og fór í jeppaferðir inn í heiðina, sem voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það var líka upplifun að prófa að síga eftir svartfuglseggjum í hrikaleg björgin á Langanesi,“ segir hann.

Björn og Christian eru alsælir í sveitasælunni í Þistilfirði og ...
Björn og Christian eru alsælir í sveitasælunni í Þistilfirði og geta alveg hugsað sér að setjast þar að.


Óvænt stefna í lífinu

Eftir þriggja mánaða dvöl í sveitinni fór Björn aftur til Þýskalands þar sem hann hugðist halda áfram háskólanáminu, sem hann var byrjaður á. Hugurinn leitaði oft til Íslands og hann var í góðu sambandi við Óla og Karen. Þau hjónin segja að í fyrrahaust hafi verið á Birni að heyra að hann vildi gjarnan koma aftur, þótt hann hefði verið búinn að ákveða að fara í herskóla í Þýskalandi þar sem Christian vinur hans var í námi og á ágætri framabraut. „Við sögðum að hann væri alltaf velkominn og að ekkert vandamál væri að útvega honum fasta vinnu á Þórshöfn.“

Ekki leið á löngu þar til Birni bauðst vinna hjá smiðnum á Þórshöfn og vini hans einnig. Strákarnir hlæja þegar þeir rifja upp hve líf þeirra tók snögglega óvænta stefnu.

„Ég átti eftir tvo mánuði af samningi mínum við herskólann og innan viku ætlaði ég að undirrita samning til næstu þrettán ára í skólanum, sem hefði tryggt mér góða lífsafkomu,“ segir Christian, „en þá kom Björn með ævintýralegt tilboð um að flytja til Íslands og ég þurfti að taka snögga ákvörðun.“

Björn seig eftir svartfuglseggjum í hrikaleg björgin á Langanesi.
Björn seig eftir svartfuglseggjum í hrikaleg björgin á Langanesi.


Húseigendur á Íslandi

Á þremur vikum tókst þeim að undirbúa sig fyrir flutninginn til Íslands og jafnvel að kaupa sendiferðabíl. Núna eru þeir í smíðavinnu á Þórshöfn og hafa nóg að gera. Ekki síst var það stór áfangi að hafa fjárfest í fyrstu fasteigninni og þeir eru þegar byrjaðir að gera húsið upp. Þeir segja báðir að svona hlutir séu nær óhugsandi í Þýskalandi. „Fólk trúir okkar varla þegar við segjumst eiga heilt hús á Íslandi, svona gerast hlutirnir ekki í Þýskalandi,“ segja þeir hlæjandi. „Fyrir sjö mánuðum hefði okkur ekki órað fyrir því að hér myndum við setjast að og kaupa hús.“

Þeir hyggjast í framtíðinni búa sjálfir á efri hæðinni en leigja þá neðri til að fá tekjur upp í viðgerðarkostnað hússins. Báðir eiga þeir foreldra og systkini í Þýskalandi, en foreldrar Björns koma í heimsókn til þeirra í haust.

Eru ekki borgarstrákar

Björn og Christian hafa svipuð áhugamál, eru vanir vinnu og útiveru og kunna að umgangast vélar og tæki. Christian er ekki ókunnugur á norðlægum slóðum því hann fór oft með foreldrunum í frí til Svíþjóðar.

Karen varaði þá við íslenska skammdeginu, löngum vetri og lítilli tilbreytingu en ótti hennar var ástæðulaus því þessir bjartsýnu ungu Þjóðverjar kunna ljómandi vel við sig.

Þýska leiðin. Sendibíllinn sem þeir félagar keyptu og létu merkja.
Þýska leiðin. Sendibíllinn sem þeir félagar keyptu og létu merkja.


„Við erum engir „big-city strákar,“ segja þeir, „við viljum njóta útiveru, fara í jeppaferðir, fjallgöngur og síðast en ekki síst finnst okkur gaman að vinna.“ Þeir tóku að sér umsjón með búinu á Syðra-Álandi frá miðjum desember og fram yfir áramót þegar fjölskyldan fór í frí til útlanda. Þann tíma var nóg að starfa og enginn tími til að láta sér leiðast.

Glöggt er gests augað

Karen og Ólafur segja það hafa verið gefandi og skemmtilegt að kynnast þessum ungu mönnum: „Þeir eru jákvæðir og kátir og hafa kennt okkur að meta það sem við höfum í kringum okkur. Þeir hafa aðra sýn á svo margt, til dæmis það sem okkur finnst hversdagslegt útsýni er í þeirra augum stórkostlegt.“ Þau nefna líka góða skipulagshæfni og lengri tíma áætlanir strákanna, sem telja megi dæmigert fyrir þjóðerni þeirra. Þar er ekki um að ræða neitt íslenskt „það reddast,“ heldur skal framkvæmt „the German way“. Viðkvæðið varð hálfgerður brandari hjá Birni og fjölskyldunni á Syðra-Álandi. Þeir Christian ákváðu að gera það að slagorði sínu og setja á bílinn sem þeir keyptu fyrir Íslandsferðina.

Þeir sjá margt ólíkt með þjóðunum tveimur, t.d. kom þeim skemmtilega á óvart hve mikil tengsl eru á milli fólks alls staðar á landinu, „Allir virðast þekkja alla og fólk er almennt svo sveigjanlegt, tilbúið að hliðra til þegar á liggur, hvort sem er hjá þjónustustofnunum eða bara einstaklingar,“ segja þeir.

Allt getur gerst á Íslandi

Björn og Christian segja að miðað við þeirra reynslu á Íslandi séu þeim allir vegir færir. Báðir hafa áhuga á að læra til smiðs og stefna á að öðlast réttindi í þeirri iðn. Slíkt kemur sér vel fyrir þá sem eru að gera upp gamalt hús.

Þeir treysta sér ekki til að fullyrða neitt þegar þeir eru spurðir hvort þeir sjái framtíðina fyrir sér í litla samfélaginu á Þórshöfn. „Hér er gott að vera og við erum opnir fyrir öllu. Aðalástæðan fyrir því að við komum aftur eru Óli og Karen, sem hafa reynst okkur ómetanlega vel, fólkið hér er einnig almennt vingjarnlegt og opið og vinnuveitandinn fínn. Ef við viljum, þá getum við báðir snúið aftur heim í skólana okkar þar sem við eigum ágæta sögu en tíminn leiðir allt í ljós. Við erum ánægðir hér og einstaklega þakklátir þeim Óla og Karen fyrir alla hjálpina sem þau hafa veitt okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »