Deiliskipulag fyrir Gelgjutanga samþykkt

Vogabyggð.
Vogabyggð. mynd/Reykjavíkurborg

Nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt í auglýsingu fyrir Gelgjutanga í Vogabyggð og fer það í sex vikna formlegt kynningarferli í næstu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Á Gelgjutanga við Elliðaárvog mun rísa vistvæn byggð í nálægð við náttúruna.

Svæðið Gelgjutangi í Vogabyggð afmarkast af lóðinni Kleppsmýrarvegur 8 til vesturs, Skútuvogi 13, 13A, Brúarvogi 1-3, Kjalaravogi 12 og 14 til norðurs, Elliðaárvogi til austurs og suðurs. Afmörkun deiliskipulags byggir á þeim rökum að svæðið myndar heildstæða einingu íbúðarbyggðar og er innan afmarkaðs landsvæðis. Áætlanir gera ráð fyrir 1.100 – 1.300 íbúðum í allri Vogabyggð.

Uppdráttur af deiliskipulagi Vogabyggðar. Græni hlutinn er Gelgjutangi.
Uppdráttur af deiliskipulagi Vogabyggðar. Græni hlutinn er Gelgjutangi. mynd/Reykjavíkurborg

Skipulagssvæði Vogabyggðar er hluti af stærra þróunarsvæði við Elliðaárvog og Ártúnshöfða sem eru landfræðilega í miðri Reykjavík. Svæðið verður endurskipulagt og byggt upp samkvæmt áherslum aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Það er skilgreint sem þróunarsvæði með breyttri landnotkun þar sem iðnaðar- og athafnasvæði er breytt í íbúðabyggð.

Í skipulagstillögunni er lögð rík áhersla á fjölbreytta byggð, góð almenningsrými og tengingar við nálæg útivistarsvæði. Þannig getur hverfið orðið eftirsóttur valkostur fyrir fólk sem kýs að búa og starfa í umhverfi sem einkennist af hvoru tveggja í senn, borgarbrag og nálægð við náttúru að því er fram kemur í tilkynningunni.

Gelgjutangi handan við smábátahöfnina við Elliðaárvog.
Gelgjutangi handan við smábátahöfnina við Elliðaárvog. Mynd/Reykjavíkurborg.

„Markmið skipulagsins er að skapa jákvæðar forsendur fyrir áhugaverða og vistvæna byggð í Vogabyggð þar sem húsbyggjendur og hönnuðir fá svigrúm til sköpunar í gerð mannvirkja sem jafnframt verða hluti af heildarmynd samfelldrar byggðar.“

Nýlega skrifaði Reykjavíkurborg undir samninga um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Gelgjutanga en heildarfjöldinn þar verður 349 íbúðir. Inni í þeirri tölu eru 75 íbúðir sem Bjarg – íbúðafélag ASÍ og BSRB mun byggja og eru þær ætlaðar fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga.

Yfirbragð bygginga í Vogabyggð verður ljóst og allar lausnir við …
Yfirbragð bygginga í Vogabyggð verður ljóst og allar lausnir við þær vistvænar. Myndin sýnir hvernig byggðin gæti litið út en ekki endanlegt útlit. mynd/Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert