Verkefnum sérsveitar fjölgað hratt

Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra ásamt búnaði og bifreið sveitarinnar.
Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra ásamt búnaði og bifreið sveitarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Eins og staðan er í dag, „í meðallagi“, teljum við að fólk eigi bara að halda áfram sínu daglega lífi. Þetta er öryggisráðstöfun til þess að vera með stuttan viðbragðstíma,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Aukinn sýnileiki vopnaðrar sérsveitar og sérstakar ráðstafanir lögreglu á fjölmennum samkomum á höfuðborgarsvæðinu í sumar hafa verið talsvert til umræðu að undanförnu en mbl.is ræddi við Jón um þessar sérstöku ráðstafanir og verkefni sérsveitar sem hefur farið hratt fjölgandi á undanförnum árum.

Ríkislögreglustjóri framkvæmir reglulega áhættumat vegna hryðjuverka á Íslandi en matið kom síðast út í febrúar. Það hefur verið óbreytt „í meðallagi“ síðan árið 2015.

„Það [áhættumatið] í sjálfu sér hækkar ekki nema við vitum að það sé yfirvofandi árás eða að það sé framin árás, þannig að við reynum sem sagt að halda því eins lágu og við teljum eðlilegt. En það getur verið að hættan sé miklu meiri, án þess að við vitum það,“ segir Jón, spurður hvort almenningur þurfi eitthvað að óttast vegna þessara sérstöku ráðstafana í sumar.

Hann segir ástæðuna fyrir auknum viðbúnaði ekki síður vera þá að á undanförnum árum og áratugum hafi aðferðir hryðjuverkamanna breyst umtalsvert. Það hafi einkum birst í þeim voðaverkum sem hafa verið framin í Vestur-Evrópu og hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á.

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Árásirnar snúa að almenningi. Það eru ekki lengur embættismenn eða stjórnmálamenn eins og var hér í gamla daga, það er að drepa sem flesta borgara landsins. Lögreglan þarf að stöðva þann verknað eins fljótt og hún getur. Hún þarf að tryggja vettvanginn svo að aðrir björgunarliðar komist inn á vettvanginn,“ útskýrir Jón. „Ef við getum ekki tryggt vettvanginn með vopnuðum lögreglumönnum bíður lögreglan og björgunarliðið fyrir utan og fólki einfaldlega blæðir út og mannfallið yrði miklu meira. Um það snýst viðbragðstíminn og nærveran.“

Nú er þetta sögð tímabundin ráðstöfun, að minnsta kosti að svo stöddu, hafið þið fengið einhverjar nýjar upplýsingar síðan áhættumat var birt í febrúar?

„Menn verða eiginlega að lesa bæði áhættumatið sem kom fram í desember 2015 og eins áhættumatið sem kom núna á þessu ári, þessi tvö opnu möt. Við erum ekki bara að tala um hryðjuverk, við erum líka að tala um einstaklinga sem atast út í samfélagið, einstaklinga sem lögreglan metur hættulega,“ svarar Jón, sem getur aðeins svarað fyrirspurnum um slíkt með almennum hætti. Þá séu glæpahópar hér á landi, bæði Íslendingar og útlendingar, sem beiti valdi.

Fólki fjölgað en lögreglumönnum fækkað

Bendir hann á að fólki í landinu, bæði innlendum og erlendum ríkisborgurum, hafi fjölgað ört á skömmum tíma. „Það eru miklu fleiri í landinu en var þegar við vorum með 712 lögreglumenn árið 2007 og kannski 300.000 útlendinga. Í dag erum við með ekki bara með næstum því tvær milljónir ferðamanna, heldur líka með tugþúsundir í erlendu vinnuafli og það fjölgar mikið í röðum hælisleitenda,“ segir Jón. Hann ítrekar þó að málið hafi ekki nokkuð með þjóðerni fólks eða uppruna þess að gera.

„Við erum ekki að segja að þetta fólk sé neitt verra en annað, við erum bara að segja það að fjöldinn í landinu á hverjum tíma er tugþúsundum meiri,“ segir Jón. Á árunum 2008-2013 hafi lögreglumönnum fækkað um hundrað og á sama tíma hafi einstaklingum í landinu á hverjum tíma fjölgað umtalsvert.

Hann bendir á að í áfangaskýrslu sem lögð var fram á þingi 2012-2013 hafi verið sett það markmið að á næstu fjórum árum skyldi lögreglumönnum fjölga upp í 860. Nú séu liðsmenn lögreglunnar þó um 50 færri en árið 2007.

„Ef við hefðum fengið þessa 200 lögreglumanna fjölgun stæðum við miklu betur að vígi. En það er ekki hluti af ákvörðun um hvort við vopnum lögreglu eða ekki ,“ ítrekar Jón. Það sé sjálfstætt mat lögreglu hverju sinni og óháð mannafla í lögreglunni.

Skýr stefna um vopnaburð lögreglu

„Stefnan er alveg skýr, við ætlum að hafa almennu lögregluna óvopnaða, það hefur ekkert breyst. En sérsveitin er í sjálfu sér hin vopnaða lögregla landsins, stofnuð árið 1982 og byrjaði að hafa vopn í bílum árið 1992, þannig að þetta er í sjálfu sér ekki nýtt eða eðlisbreyting,“ segir Jón. Verkefnum sérsveitar hafi þó vissulega fjölgað á undanförnum árum í takt við aukinn fólksfjölda í landinu.

Myndir þú segja að það væri rétt að tala um aukinn sýnileika sérsveitar frekar en aukinn vopnaburð lögreglu?

„Það má eiginlega segja það, að sýnileiki sérsveitar hefur aukist í gegnum árin, og vopnuðum verkefnum hennar hefur snarfjölgað ef að maður lítur til baka,“ segir Jón.

Almennir lögregluþjónar á vakt á leik Íslands og Króatíu í …
Almennir lögregluþjónar á vakt á leik Íslands og Króatíu í knattspyrnu nýverið. mbl.is/Hanna

Hann segir rannsóknir hafa leitt í ljós ólíkar niðurstöður hvað varðar það sjónarmið að vopn kalli á frekari vopn. Aftur á móti sé reynslan sú að afbrotahópar vopnist hver gegn öðrum. „Það er liður í valdabaráttu þeirra, hefndum og slíku, ekki gegn lögreglunni. Lögreglan og almenningur lendir hins vegar stundum á milli eins og við höfum séð á Norðurlöndunum,“ segir Jón.

Þessari tilhneigingu hefur tekist að halda niðri hér á landi og hefur sérsveitinni verið beitt ótæpilega til þess að eiga við glæpahópa ef ríkislögreglustjóri fær njósn af því að glæpahópar séu byrjaðir að útvega sér vopn. „Okkur hefur tekist að halda þessari þróun mikið niðri. Það hefur mikið til verið vegna aðkomu sérsveitarinnar,“ segir Jón.

Viðbragðstíminn skiptir máli

Þá segir hann það ekki vera rétt sem haldið hafi verið fram um að nærvera lögreglu þjóni litlum tilgangi þar sem hún gæti hvort sem er lítið gert ef framin yrðu voðaverk.

„Það er bara ekki rétt, viðbragðstíminn verður miklu hraðari til þess að stöðva verknaðinn og tryggja vettvang, auk þess sem það er líka þekkt að hryðjuverkamenn leita kannski að auðveldari skotmörkum. Ef þeir sjá lögreglu með viðbúnað fara þeir frekar á aðra staði. Þeir vilja ná þeim markmiðum sínum að drepa sem flesta,“ segir Jón.

Lögregla hafi þó ekki burði til þess að vera alls staðar og þess vegna sé mestur viðbúnaður þar sem fjöldinn sé mestur. Þá bendir Jón á að samkvæmt vopnareglum sé beinlínis gert ráð fyrir því að ef lögreglumenn séu vopnaðir skuli vopnin vera sýnileg svo ekki fari á milli mála hverjir beri vopn og hverjir ekki.  

Ber að fylgja reglum og skipulagi 

Jón kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd á föstudag og segir hann að á fundinum hafi embætti ríkislögreglustjóra getað útskýrt margt fyrir þingmönnum, til að mynda ýmislegt er varðar bæði reglur og skipulag sem embættinu ber að fylgja, meðal annars svokallaða þriðja ríkis reglu.

„[Hún] takmarkar í raun og veru hvað við megum birta opinberlega af upplýsingum sem koma frá útlöndum, trúnaðarskyldu gagnvart þeim hér innanlands sem veita okkur upplýsingar,“ sagði Jón í samtali við mbl.is að fundi loknum. „Þannig að við getum ekki sagt almenningi, því miður, eða jafnvel öðrum stjórnvöldum nákvæmlega hvaða upplýsingar við höfum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert