Íslenska í öllum tækjabúnaði

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti Máltæki fyrir íslensku …
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti Máltæki fyrir íslensku 2018-2022. mbl.is/Ófeigur

Íslensku verður að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims þegar Máltækniáætlun fyrir íslensku 2018-2022 verður komin í gildi. Þetta kom fram á fundi þar sem áætlunin var kynnt í dag í Veröld - Húsi Vigdísar. 

„Við þurfum, ætlum og viljum standa vörð um íslenskuna sem litast mjög af stafrænni tækni í dag,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar hann kynnti nýja verkáætlun um máltækni fyrir íslensku. 

Mennta- og menningarmálaráðherra lagði ríka áherslu á að þetta verkefni yrði hugsað til lengri tíma en ekki eins og hvert annað átaksverkefni sem Íslendingar eru gjarnan þekktir fyrir. Hann gat þess einnig að umrædd verkáætlun um máltækni væri afrakstur vinnu fyrri ríkisstjórnar. Hann tók einnig fram að stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að hrinda verkefninu í framkvæmd sem er til næstu fimm ára.

„Stjórnvöld vinna hins vegar ekki ein og sér að því að standa vörð um íslenskuna í þessum stafræna heimi heldur þurfa allir að koma að því,“ sagði hann jafnframt og vísaði til mikilvægi samvinnu stjórnvalda við atvinnulíf og háskólasamfélagið.   

Anna Björk Nikulásdóttir sérfræðingur í máltækni við Gervigreindarsetur Háskólans í …
Anna Björk Nikulásdóttir sérfræðingur í máltækni við Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík. mbl.is/Ófeigur

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók undir orð ráðherra og sagði árhersla væri lögð á mátækni í einni eða annarri mynd hjá samtökunum. 

„Það er ómetanlegt að tryggja að á íslensku megi alltaf finna svar. Það er mikilvægt að hægt sé að móta og þróa flóknar hugsanir á íslensku fyrir atvinnulífið,“ sagði Halldór. Hann tók fram að fyrirtæki í atvinnulífinu tækju mjög vel í verkefnið og vilja leggja sitt af mörkum til að ná fram markmiðunum. Atvinnulífið hefði ávinning af máltækninni.

Stöndum frami fyrir miklum áskorunum

„Við gerum okkur vel grein fyrir áskoruninni sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Anna Björk Nikulásdóttir, einn þriggja skýrsluhöfunda og sérfræðingur í máltækni við Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík, á kynningunni.

Hún talaði um mikilvægi þess að hægt verði að nota íslensku sem samskiptamáta í tækniheiminum. Hún boðaði jafnframt að samstarf við stærstu tölvutæknirisana á borð við Microsoft og Amazon. 

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, hlýddi á kynninguna.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, hlýddi á kynninguna. mbl.is/Ófeigur

Verkáætlunin byggir á tillögum stýrihóps um máltækni. Tillögurnar snúa meðal annars að endurskipulagningu náms í máltækni, myndun klasa, rannsóknum og tækniþróun svo fátt eitt sé nefnt. Markmið með máltækniáætlun fyrir íslensku er að tryggja að hægt sé að nota íslensku sem samskiptamáta í tækniheiminum. Unnið verður að því að byggja upp innviði, gagna og hugbúnaðar, þar sem lögð verður áhersla á fjögur atriði. Þetta eru: talgreinir, talgervill, þýðingarvél og málrýnir.

Tækniframfarir eru örar og því þurfa mátæknilausnir á íslensku að fylgja þeirri þróun. „Þróun innviða mun lækka þann þröskuld sem almenn hugbúnaðarfyrirtæki þufa að yfirstíga til að innleiða máltækni í hugbúnaðarlausnir sínar,“ segir í skýrslu máltækni fyrir íslensku 2018-2022.

Stýrihópurinn sem var skipaður í lok október 2016 og skilaði af sér tillögum sínum í vikunni. Í stýrihópnum áttu sæti Davíð Þorláksson formaður, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Birna Ósk Einarsdóttir, Guðrún Nordal og Pétur Reimarsson. Þess má geta að ráðherra þakkaði öllum sem komu að þessari vinnu fyrir vel unnin störf og skilaði hópurinn tillögunum á undan áætlun og þar með hafðu talsvert miklir fjármunir sparast. 

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ófeigur
mbl.is/Ófeigur
mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert