Sakar borgina um orðhengilshátt

Lögmaður AFA JCDecaux segir það ekki skipta máli þótt ekki …
Lögmaður AFA JCDecaux segir það ekki skipta máli þótt ekki sé greitt fyrir auglýsinguna. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögmaður fyrirtækisins AFA JCDecaux, sem á og rekur mikinn fjölda biðskýla á höfuðborgarsvæðinu, segir það ekki skipta máli hvernig fjárhagslegu sambandi við leigutaka sé háttað. WOW citybike auglýsingarnar á hjólastöðvunum fyrirtækisins séu mikil auglýsing fyrir WOW air óháð því hvort hjólaleigan sé auka búgrein flugfélagsins eða hrein viðbót við annað markaðsstarf félagsins.

Fyrirtækið sendi Reykjavíkurborg bréf í síðustu viku og krafði borgina efnda á samningi fyrirtækisins og borgarinnar um rekstur biðskýla í borginni. Í samningnum er kveðið á um að óheimilt sé að setja upp auglýsingaskilti í 50 metra radíuss frá biðskýlum AFA JCDecaux en að minnsta kosti fjórar af hjólastöðvum hjólaleigu WOW citybike eru innan þess radíuss að því er fram kemur í bréfinu til borgarinnar.

Í bréfinu kemur fram að fyrirtækið áskilji sér allan rétt til að rifta samningnum og fjarlægja öll biðskýli af höfuðborgarsvæðinu verði ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. 

Mikil auglýsing hvort sem hjólaleigan sé auka búgrein eða hrein viðbót við markaðsstarf

Krist­björg Stephen­sen borg­ar­lögmaður sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að borgin væri ekki að brjóta gegn samningnum þar sem skilti WOW citybike séu ekki auglýsingaskilti heldur upplýsingaskilti þar sem þjónustan er auglýst. 

„Viðkom­andi er bara að upp­lýsa um þá þjón­ustu sem hann rek­ur. Hann reynd­ar rek­ur einnig flug­fé­lag, en það er eins og það er,“ sagði Kristbjörg í samtali við mbl.is fyrir helgi.

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður AFA JCDecaux, gefur lítið fyrir þessi rök borgarinnar. Segir hann WOW air vera annað stærstu flugfélaga landsins og hvort sem hjólaleigunni sé ætlað að vera auka búgrein sem ber reksturinn sjálf, eða sé hrein viðbót við annað markaðsstarf WOW air, þá sé þetta mikil auglýsing fyrir WOW.

Horfði öðru vísi við ef um upplýsingastand frá borginni væri að ræða

„Þetta væri kannski annars eðlis ef þetta væri eingöngu upplýsingastandur. Með spjaldi frá Reykjavíkurborg um hvar hægt væri að nálgast almenningssalerni og með korti af slíku, eða eitthvað um almenna þjónustu við borgara, t.d. um ferðir strætó eða eitthvað slíkt,“ segir Ómar.

„Það er ein af meginreglum íslensks réttarfars að samningar skuli halda. Það er ekki hægt að fela sig á bak við einhvern orðhengilshátt,“ segir Ómar. Borginni var veittur frestur til 4. júlí að bregðast við bréfinu áður en fyrirtækið áskilur sér rétt til að segja samningnum upp, fjarlægja biðskýlin og hugsanlega krefja borgina um skaðabætur aðhafist borgin ekkert fyrir þann tíma.

„Við bíðum eftir svörum frá borginni. Vonandi verður hægt að leysa þetta farsællega við alla og allir una glaðir við sinn reit í kjölfarið. En borgin verður að standa við sína samninga, þó að nú væri,“ segir Ómar. Samningur AFA JCDecaux og borgarinnar er frá árinu 1998 og gildir til 20 ára.

mbl.is