Hóta að fjarlægja öll strætóskýlin

AFA JCDecaux á fjölda biðskýla á höfuðborgarsvæðinu. Nú hótar fyrirtækið …
AFA JCDecaux á fjölda biðskýla á höfuðborgarsvæðinu. Nú hótar fyrirtækið að fjarlægja þau öll vegna brots borgarinnar á samningnum um rekstur biðskýlanna. mbl.is/Brynjar Gauti

Reykjavíkurborg er veittur 14 daga frestur til að bregðast við samningsbroti á samningi borgarinnar og AFA JCDecaux, sem á og rekur öll biðskýli á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfi frá lögmanni JCDecaux til borgarinnar kemur fram að fyrirtækið áskilji sér allan rétt til að rifta samningnum og fjarlægja öll biðskýli af höfuðborgarsvæðinu verði ekki gripið til viðeigandi ráðstafana.

Með samkomulagi um rekstur biðskýla frá árinu 1998 skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að heimila ekki auglýsingar utan á fasteignum í einkaeigu borgarinnar og á borgarlandinu í minna en 50 metra fjarlægð frá auglýsingaskiltum JCDecaux við biðskýli. 

Eru innan 50 metra radíuss frá skiltum AFA JCDecaux

„Ljóst er að hið minnsta fjögur af átta auglýsingaskiltum WOW air, við Hallgrímskirkju, við sundlaugina í Laugardal, á Lækjartorgi og við Hlemm, eru í minna en 50 metra fjarlægð frá auglýsingaskiltum og götugögnum umbjóðanda undirritaðs,“ segir í bréfinu til borgarlögmanns og er þar vísað til auglýsingaskilta WOW air við hjólastöðvarnar sem settar voru upp fyrr í þessum mánuði. JCDecaux lýsti yfir áhuga á að taka þátt í útboði vegna reksturs hjólaleigu en reksturinn var aldrei boðinn út líkt og fjallað var um ítarlega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í byrjun mánaðarins.

„Riftun samningsins mun hafa það í för með sér að umbj. undirritaðs mun fjarlægja öll þau götugögn, sem tilgreind eru í samningi aðila. Þá áskilur félagið sér fullan rétt til þess að krefja borgina um skaðabætur vegna samningsbrotsins,“ segir þar enn fremur.

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður JCDecaux á Íslandi, segir að skaðabæturnar kunni að hlaupa á tugum milljóna þar sem fyrirtækið verði af miklum auglýsingatekjum ef taka þarf niður öll skýli í borginni vegna samningsbrotsins ári áður en samningurinn rennur út.

mbl.is