Engin merki um gosóróa

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul. mbl.is/Rax

„Það byrjaði síðasta sumar að aukast aðeins virknin í Kötlu og þetta er bara áframhald af því,“ segir Kristín Elísa Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftann sem mældist í Mýrdalsjökli klukkan 19:12 í kvöld.

„Það er búið að vera tiltölulega rólegt upp á síðkastið en það koma alltaf af og til skjálftar yfir þrjá,“ segir Kristín Elísa. Ekki eru þó nokkur merki um gosóróa á svæðinu.Búið er að staðfesta fjóra eftirskjálfta eftir þann stærsta sem mældist 3,3 að stærð en allir hafa þeir verið mjög litlir.

Skjálftinn í kvöld fannst á einhverjum sveitabæjum í Mýrdalnum og þarf það ekki að koma á óvart að sögn Kristínar Elísu. Skjálftar að þessari stærð geti fundist nokkuð vel í allt að 20 kílómetra fjarlægð frá upptökum skjálftans, en ólíklegt er að fólk finni fyrir honum í mikið meiri fjarlægð en sem því nemur.

mbl.is