Plan C að ráðherra stígi inn í málið

Ferjan sem deilt er um hvort fái að sigla til …
Ferjan sem deilt er um hvort fái að sigla til viðbót­ar við Herjólf til Vest­manna­eyja um versl­un­ar­manna­helg­ina. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson fyrir Eimskip

„Plan C er að ráðherra stígi inn í þetta mál og vindi ofan af þessari endemis vitleysu Samgöngustofu,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um höfnun á beiðni bæjarins um afnot á ferjunni Akranesi. Ferjan hafi þegar verið varaáætlun og ekki komi til greina að leigja annan bát. Bæjaryfirvöld ætli frekar að fara alla leið. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda megi ekki ráða.

Samgöngustofa ákvað nýlega að ferjan Akranes fengi ekki leyfi til siglinga á milli Eyja og lands um verslunarmannahelgina. Ferj­an hef­ur heim­ild til farþega­flutn­inga milli Akra­ness og Reykja­vík­ur á hafsvæði C en hafsvæðið milli Land­eyja­hafn­ar og Vest­manna­eyja er sömu­leiðis í flokki C. Vest­manna­eyja­bær kærði í beinu framhaldi ákvörðun stofnunarinnar og krafðist þess að sam­gönguráðuneytið felldi ákvörðun Sam­göngu­stofu úr gildi.  

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum Árni Sæberg

Plan C að ráðherra vindi ofan af vitleysunni

Að sögn Elliða var ferjan Akranes þegar varaáætlun Vestmanneyinga. „Þetta er plan B, þessi ferja. Við ætluðum að leigja nákvæmlega eins ferju, með öll sömu leyfi og þessi, sem var í öllum atriðum eins,“ segir Elliði. Samgöngustofa hafi sýnt jákvæð viðbrögð um leigu á þeirri ferju en báturinn hafi svo runnið þeim úr greipum. Þegar bæjaryfirvöld hafi stungið upp á notkun á Akranesi hafi komið annað hljóð í strokkinn að ástæðulausu, að mati Elliða.

Nú ætlar hann að fylgja eftir kæru bæjarins, annar bátur kemur ekki til greina. „Plan C er að ráðherra stígi inn í þetta mál og vindi ofan af þessari endemis vitleysu Samgöngustofu,“ segir Elliði. „Þessu verður fylgt eftir alla leið og við munum halda þessu máli algjörlega til streitu og ég trúi ekki að þetta verði erfitt mál fyrir yfirmenn þessarar stofnunar,“ bætir hann við.

Geðþótti eigi ekki að ráða

Elliði segir ákvörðun Samgöngustofu hafa einkennst af geðþótta. „Við megum ekki búa við geðþóttaákvarðanir stjórnvalda,“ segir hann. „Við höfum lög, við höfum reglugerðir, en geðþótti á ekki að ráða,“ segir hann.

Rökstuðningur Samgöngustofu gangi ekki upp, til dæmis hafi Samgöngustofa bent á að leið ferjunnar milli Akraness og Reykjavíkur sé útsýnisleið, sem Elliða þykir mjög einkennilegt: „Algjörlega fráleitur málflutningur.“

Elliði gagnrýnir rökstuðning Þórólfs Árnasonar, forstjóra Samgöngustofu.
Elliði gagnrýnir rökstuðning Þórólfs Árnasonar, forstjóra Samgöngustofu. mbl.is

Unga fólkinu ekki treystandi

Þá segir Elliði að Samgöngustofa hafi í orðræðu sinni gefið í skyn að farþegar yfir verslunarmannahelgi hafi haft neikvæð áhrif á umsóknina. „Forstjóri Samgöngustofu segir að ástandið á farþegum til Vestmanneyja sé þannig að það sé ekki hægt að heimila það. Þar er hann væntanlega að vísa til þess að unga fólkinu okkar sé ekki treystandi og þau séu öll útúrdrukkin, “ segir hann.

Hann bætir við að slík fullyrðing sé einfaldlega ekki sönn, gestir yfir hátíðina séu prúðbúnir, og hann trúi ekki að „íslenskir embættismenn og eftirlitsmenn á Íslandi geti gengið fram með svona þvætting“.

Veiti bæjarbúum öryggi

Ferjan hefði veitt bæjarbúum og gestum ákveðið öryggi yfir hátíðina, til dæmis þegar kæmi til sjúkraflutninga. Yfirvöld hefðu getað brugðist skjótt við ef óhöpp gerðust yfir helgina.

„Þarna erum við þá með ferju sem getur flutt sjúkrabörur eða veikt fólk og fleiri en tvo í einu, á þessum mikla hraða. Þetta er þannig aukið öryggi og brýnir okkur enn frekar til þess að láta ekki undan,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina