Lét höggin dynja á Birnu í aftursætinu

Urs Oliver Wiesbrock fór yfir niðurstöður sínar sem réttarmeinafræðings, en …
Urs Oliver Wiesbrock fór yfir niðurstöður sínar sem réttarmeinafræðings, en honum var falið að svara sex spurningum. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki eru neinar vísbendingar um að vopn eða verkfæri hafi verið notuð til að veita Birnu Brjánsdóttur áverka. Hægt er að segja með nokkurri vissu að áverkar á líkama hennar hafi verið eftir hnefa, en ekki spörk eða olnboga. Mögulegt er þó að brotaþoli hafi verið skallaður og áverkarnir myndast þannig. Ekki er hins vegar hægt að segja til um það með vissu á grundvelli ummerkja.

Þetta segir Urs Oliver Wiesbrock, sérfræðilæknir í réttarmeinafræði, sem tók að sér að svara sex spurningum í máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Møller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur 14. janúar síðastliðinn. Annar dagur aðalmeðferðar í málinu fer fram í dag í Héraðsdómi Reykjaness. Wiesbrock ber vitni með aðstoð túlks.

„Þegar um er að ræða vopn eða verkfæri sem eru hörð eða með hrjúfu yfirborði sést það á áverkunum og það eru ekki vísbendingar um að notuð hafi verið slík verkfæri.

Líklegast notaður hnefi

Á grundvelli aðstæðna í bílnum og ummerkja er hægt að segja með nokkurri vissu að ekki er um að ræða höggáverka vegna sparks og ólíklegt er að áverkar séu eftir olnboga. Líklegast er að notaður hafi verið hnefi,“ segir Wiesbrock.

Hann segir jafnframt líklegt að Birnu hafi verið veitt eitt eða fleiri högg sem gáfu blóðáverka. „Á grundvelli blóðferla og blóðummerkja á aftursæti bifreiðar er um að ræða blóðáverka sem stafað hafa af höggum sem komið hafa í kjölfar höggs eða högga sem á undan hafa farið. Fyrst hefur komið höggáverki sem veldur sárum og síðar fylgja fleiri högg. Við það dreifist blóðið sem varð til við fyrsta höggið,“ útskýrir hann.

Miðað við blóðummerki í bílnum má ætla að Birna hafi setið eða legið hægra megin á aftursætisbekk bifreiðarinnar á meðan höggin dundu á henni.

Thom­as­ Møller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Thom­as­ Møller Ol­sen í Héraðsdómi Reykjaness í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áverkar og dökk svæði 

Wiesbrock gerir grein fyrir niðurstöðum sínum sem réttarmeinafræðings á áverkum á líki Birnu með því að vísa til ljósmynda sem hann afhenti dómnum í upphafi.

„Á mynd eitt sést greinilega á andliti látnu að nefið er útflatt og breikkað. Þótt það sjáist ekki á brjóstmyndinni að nefbeinið er brotið kemur það síðar fram.

Á myndum eitt og tvö sést áverki á efra hægra augnloki sem sýnir ummerki um blæðingu og á vörum sjást stakir smærri yfirborðsáverkar í húð.

Á mynd þrjú sést dökkt svæði á enni og á vinstri kinn og vanga og hægra megin. Þetta geta verið líkblettir en einnig ummerki um áverka.

Á mynd fjögur sést blæðing undir höfuðhúðinni hægra megin.

Á mynd fimm sjást blæðingar á stóru svæði hægra megin á höfði og hnakka.

Á mynd sex sést fremur ógreinileg innri blæðing á höfði.

Á mynd sex sést áverki á innanverðri efri vör sem teygir sig inn að tannholdi, einkum hægra megin. Það sem sést ekki svo greinilega á myndinni en sést í stafrænni útgáfu er að um er að ræða áverka á vörinni sem hefur orðið vegna þrýstings. Vefurinn er rifinn. Hægra megin á kinninni sést einnig að það vantar hluta af mjúkvef en engin ummerki um blæðingar. Hér er því um að ræða áverka sem hefur orðið til eftir andlátið.

Á mynd átta sést að hægra eyra vantar að hluta til, en það má rekja til þess að dýr hafi verið að verki.

Á mynd níu sjást framan við hægra eyrað ummerki um blæðingu sem geta verið eftir höggáverka.

Á mynd tíu sést höfuð vinstra megin að innanverðu, en er ekki hægt að staðfesta ummerki um blæðingu.

Á mynd ellefu sjást marummerki um ytri höggáverka beggja megin á hálsi.

Á myndum þrettán og fjórtán sjást blæðingar inni á mjúkvefjum hálsins.“

Ólíklegt að vopn eða verkfæri hafi verið notuð

Eftir að hafa farið yfir áverka á líki Birnu tekur Wiesbrock saman niðurstöður sínar. „Þegar allt er tekið saman er um að ræða greinlega ákverka um mitt höfuð, við nef og munn en þó einkum hægra megin. Þessir áverkar sýna engin skýr form,“ segir hann og dregur af því þá ályktun að ólíklegt sé að vopn eða verkfæri hafi verið notuð til að veita áverkana.

Wiesbrock sýnir myndir úr rauðu Kia Rio bílaleigubifreiðinni, sem Thomas hafði til umráða, til að gera frekar grein fyrir niðurstöðum sínum. Hann segir að miðað við ummerkin í bílnum megi ætla að Birna hafi setið eða legið hægra megin á aftursætisbekk bifreiðarinnar, á meðan höggin dundu á henni.

Þegar horft sé til áverkanna, séu þeir einkum á hægri hlið höfuðsins og hafi því að öllum líkindum orðið til fyrir tilstilli vinstri hnefa, segir Wiesbrock.

Ein þeirra spurninga sem honum var falið að svara var hvort brotamaðurinn væri örvhentur eða rétthentur, en hann segir ekki hægt að segja til um það með óyggjandi hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert