Starfsemi United Silicon stöðvuð

Starfsemi United Silicon hefur verið stöðvuð.
Starfsemi United Silicon hefur verið stöðvuð. mbl.is/Rax

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að stöðva rekstur United Silicon. Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla á níunda tímanum í kvöld.

Um­hverf­is­stofn­un til­kynnti United Silicon í síðustu viku að hún áformaði að stöðva starf­semi kís­il­vers­ins ef annaðhvort afl ljós­boga­ofns verk­smiðjunn­ar færi niður fyr­ir 10 MW eða stöðvaðist í klukku­stund eða meira, þó eigi síðar en 10. sept­em­ber. Ekki yrði þá heim­ilt að end­ur­ræsa ofn­inn nema með skrif­legri heim­ild að lokn­um end­ur­bót­um og mati á þeim.

Í ákvörðun Umhverfisstofnunar kemur fram að rekstur kísilversins hafi í för með sér veruleg óþægindi fyrir íbúa í nánasta umhverfi verksmiðjunnar. Einnig hafi borist kvartanir frá starfsmönnum annarra fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu.

„Þrátt fyrir auknar mælingar liggur enn sem komið er ekki fyrir skýring á því hvaða efni valda ólykt frá kísilverinu sem lýst hefur verið í kvörtunum íbúa og staðfest hefur verið við eftirlit. Sóttvarnalæknir hefur fylgst með málinu og starfað með Umhverfisstofnun að mati á áhrifum starfseminnar. Þau einkenni sem gerð hefur verið grein fyrir geta t.d. stafað af anhýdríðum sem mælst hafa og/eða formaldehýði,“ segir í niðurstöðu Umhverfisstofnunar.

„Þrátt fyrir tilteknar bætur í aðdraganda heimildar til enduruppkeyrslu á ný hafa komið upp frekari bilanir í búnaði. Einnig hafa mistök í rekstri leitt til atvika sem haft hafa í för með sér mengun. Telur Umhverfisstofnun því nauðsynlegt að farið verði ítarlega yfir gæði framleiðslu- og mengunarvarnabúnaðar m.t.t. öryggis mengunarvarna,“ segir þar enn fremur.

Segir einnig í niðurstöðu Umhverfisstofnunar að frávik frá starfsleyfi United Silicon, einkum varðandi lyktarmengun, séu alvarleg. „Stofnunin telur ekki viðunandi að íbúar í nágrenni verksmiðjunnar búi við þau verulegu óþægindi sem rekstur verksmiðjunnar hefur í för með sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina