„Þetta er djöfullegt alveg“

Göngur og réttir eru nú í fullum gangi, enda er …
Göngur og réttir eru nú í fullum gangi, enda er sláturtíð hafin. Sigurður Bogi Sævarsson

„Við vitum bara í rauninni ekkert,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, í samtali við mbl.is. Fullkomin óvissa er uppi um hvort tillögur sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra kynnti á dögunum, þar sem kaupa átti bændur út úr greininni, nái fram að ganga. Raunar má það teljast frekar ósennilegt.

Sauðfjárbændur hafa þurft að taka á sig miklar lækkanir á afurðaverði. Verð til þeirra lækkaði um 10% fyrir síðustu sláturtíð en lækkunin núna nemur 26-35%. Þetta skýrist af offramleiðslu lambakjöts og bæði forsvarsmenn bænda og stjórnvalda hafa verið sammála um að fækka þurfi fé um 20%.

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda.
Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda. mbl.is/aðsent

Í því samhengi kynnti Þorgerður Katrín tillögur á dögunum þar sem þeim bændum sem hætta sauðfjárbúskap var boðin 90% greiðsla af innleggi næstu fimm árin. Þeir sem tækju ákvörðun um að hætta á næsta ári var boðið að fá 70% greiðslu til þriggja ára. Hugmyndin var sú að gera bændum kleift að hætta í greininni eða hverfa til annarrar ræktunnar á jörðum sínum. Tillögurnar voru umdeildar og voru bæði gagnrýndar af Bændasamtökum Íslands og fulltrúum flokka í minnihluta á Alþingi.

Þessar fyrirætlanir stjórnvalda eru nú í uppnámi, enda er ríkisstjórnin fallin. Unnsteinn segir við mbl.is að þeir hafi ekki átt samtal við ráðherra. „Við vitum ekki hvað starfsstjórnin gerir eða hvaða umboð hún hefur. Dagurinn fer í að taka stöðuna.“ Hann segir að enginn geti tekið ákvörðun um að hætta eins og sakir standa.

Landssamtök sauðfjárbænda halda aukafund á morgun, þriðjudag. Ráðherra hefur verið boðaður á þann fund. Unnsteinn bendir þó á að ekki sé ljóst hver staða ráðherra til ákvarðana verður. „Þetta er djöfullegt alveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert