Flest afbrot tengd vímuefnaneyslu

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rannsóknir benda til þess að á Íslandi séu 15-20 þúsund fullorðnir einstaklingar virkir kannabisneytendur. Um 40% fanga höfðu neytt fíkniefna daglega áður en þeir hófu afplánun. Flest afbrot sem framin eru á Íslandi tengjast vímuefnaneyslu. Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu SÁÁ í morgun þar sem fjallað var um fíkn og afbrot.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands, var meðal ræðumanna á ráðstefnunni en hann hefur unnið rannsóknir í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á kannabisneyslu á Íslandi.

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson.

8% grunnskólanema hafa neytt kannabis

Í rannsóknum hans hefur komið fram að flestir Íslendingar telja fíkniefnabrot mestu vandamál afbrota á Íslandi og sömu mælingar sýna að flestir telja áfengis- og fíkniefnaneyslu mikilvægustu ástæðu þess að sumir leiðist út í afbrot á Íslandi. Viðtöl við fanga, fangaverði og lögreglu sýna svipaðar niðurstöður, segir Helgi. 

Alþjóðlegar mælingar sýna að neysla grunnskólabarna á kannabis er í lægri kantinum á Íslandi í samanburði við flest önnur Evrópulönd (ESPAD). En Helgi bendir á að samt hafi 8% tíundu bekkinga prófað kannabis þegar rannsóknin var gerð árið 2010. Hann spurði ráðstefnugesti að því hvort þeir töldu ekki að það væri of hátt hlutfall að 8% grunnskólabarna hefði neytt kannabis. 

Nýjasta mæling Helga er frá því í apríl 2017 og hún sýnir að um 35% Íslendinga á aldrinum 18-74 ára hafi einhvern tíma hafa prófað kannabis sem er algengasta fíkniefnið á Íslandi. Fleiri karlar en konur hafa neytt kannabis og Helgi segir að fleiri ungmenni hafi prófað kannabis nú en í fyrri rannsóknum. 

Um 12% aðspurðra sögðust hafa prófið efnið oftar en tíu sinnum og 5% af öllum í úrtakinu hafði prófað efnið á síðustu sex mánuðum fyrir mælinguna.

Að sögn Helga er oft um forvitni að ræða - ungt fólk í tilraunamennsku en flestir hætti þegar aldur og ábyrgð færist yfir. Hann segir að neyslan geti hins vegar verið varasöm ekki síst ef hún hefst snemma því alltaf sitja einhverjir eftir og misnota áfengi og fíkniefni. Þeir sem sökkva djúpt í fen harðra efna.

Athyglisbrestur, ofvirkni og lesblinda

Helgi vísaði í MA-ritgerð Hildar Hlöðversdóttir frá árinu 2015 en hún lagði spurningalista fyrir alla fanga og fékk 75% svörun frá þeim. 

Meira en þriðjungur svarenda hafði neytt áfengis daglega í viku áður en í fangelsið var komið. Meira en helmingur svarenda hafði neytt fíkniefna daglega fyrir afplánun. Meirihluti fanga hafði verið greindur með svo sem athyglisbrest, ofvirkni og lesblindu. Eins var andleg líðan þeirra ekki góð þegar þeir komu í fangelsið. 

Að sögn Þórarins Tyrfingssonar læknir eru afbrot framin vegna dreifingar og sölu vímuefna stór ástæða þess að menn eru dæmdir í fangelsi. Hann segist ekki telja rétt að auka refsingar við slíkum brotum. Það breyti ekki neinu og sagan sýni að þyngri dómar dragi ekki úr brotunum.

Þórarinn Tyrfingsson.
Þórarinn Tyrfingsson. mbl.is/Árni Sæberg

Misskilja lýðræðishugtakið

„Um 80% fanga eru fíklar og það er vandamál þessara manna,“ segir Þórarinn. Hann segir að það sé fíknisjúkdómurinn sem skipti mestu og að reyna að ná tökum á sjúkdómnum. Fangar þurfi á stuðningi að halda til að takast á við lífið að nýju að lokinni afplánum. Jafningjafræðsla dugi ekki til því ef sjúklingurinn er veikur af fíknisjúkdómi þá þurfi meira að koma til. 

Aftur á móti sé fullt af fólki, þar á meðal stjórnmálamenn, sem heldur að lýðræðið byggist á því að heimska og vanþekking sé jafn rétthá og þekking sérfræðinga. Vilja helst að það sé kosið um allt. Að sögn Þórarins er þetta rangt. Lýðræðið gangi ekki út á þetta og það verði að vera verkaskipting. 

Þráinn Farestveit.
Þráinn Farestveit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhyggjur af stöðu þeirra að lokinni afplánun

Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar, fjallaði í sínu erindi um starf Verndar og stöðu margra þeirra sem afplána refsidóma á Íslandi. Hann segir að  7% fanga séu ekki í neinum samskiptum við fjölskyldu eða vini. 31% fanga glímir við sjálfsvígshugsanir. Fjórðungur fær aldrei heimsóknir og 30% eru ekki í góðu sambandi við sína nánustu fjölskyldu.

Þriðjungur fanga er aðeins með grunnskólamenntun eða hefur ekki lokið grunnskólanámi. Meira en fjórðungi þeirra leið illa í grunnskóla og  40% eiga við lesblindu að stríða og 31% skrifblindu. 51% fanga eru ofvirkir og  42% með athyglisbrest.

Hann segir að stór hluti skjólstæðinga Verndar eigi við fíkniefnavanda að stríða og flest afbrot tengist vímuefnaneyslu. Þráinn segist hafa áhyggjur af afdrifum þeirra eftir að afplánun lýkur. Margir eigi ekki í nein hús að vernda og eins eru margir í vandræðum með að fá atvinnu að lokinni afplánun. 

Sogn.
Sogn. mbl.is/Rax

Sogni verði breytt í meðferðarmiðstöð fyrir fanga

Þeir Helgi, Þráinn og Þórarinn eru allir sammála um að ekki sé nein ein lausn í vanda fólks sem leiðist út í afbrot. Vandinn er samþættur, bæði fíknisjúkdómur og önnur vandamál sem viðkomandi stríðir við. Þórarinn segist vilja sjá að Sogni verði breytt í meðferðarstöð fyrir fanga enda sé fíkn ekki sjúkdómur sem læknist á 28 dögum eins og sumir telja eða jafnvel 10 dögum. 

Helgi segir þörfina mikla og eins verði  að taka á persónulegum vanda fanga með aðstoð frá sérfræðingum. Að byggja brú á milli frelsis og fangelsis því allt of hátt hlutfall snúi aftur í fangelsi.

Að Þórarins er jafnvel hægt að veita föngum umbun standi þeir sig. Svo sem með því að stytta dóma ef þeir ná að halda sig fjarri vímuefnum á meðan afplánun stendur. „Fangar hafa til mikils að vinna,“ segir Þórarinn og bætir við að hægt sé að ná miklum árangri með jákvæðri hvatningu til þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert