Í minningu sonar

Björn Hjálmarsson minnist látins sonar, Hjálmars Björnssonar, en Hjálmar hefði …
Björn Hjálmarsson minnist látins sonar, Hjálmars Björnssonar, en Hjálmar hefði orðið 35 ára í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Elsku Hjálmar minn, ég veit að þér líður vel í eilífðarlandinu. Á þínum björtustu stundum sendir þú mér vafurloga í hjarta. Hann stappar í mig stálinu og hvetur mig til góðra verka. Ég þakka þér fyrir þau sextán stórkostlegu ár sem við áttum saman. Fyrir þau verð ég ævinlega þakklátur.“

Þannig hefst hinsta kveðja Björns Hjálmarssonar til sonar síns en í dag eru 35 ár síðan Hjálmar Björnsson fæddist. 

Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), hefur gengið í gegnum dimma dali í sorg sinni og sorgin komið fram sem reiði og aðrar erfiðar tilfinningar, ekki bara fyrir Björn heldur alla þá sem standa honum nærri. Hann segist ekki eiga neitt betra að gefa syni sínum en að kafa ofan í fyrirgefninguna og láta ólán sitt ekki skapa sig heldur endurheimta sjálfræði sitt, „endurheimta frelsi mitt,“ segir Björn í samtali við blaðamann. 

„Ég minnist þess hvað þér þótti gaman að róla á aldrinum tveggja til fimm ára. Þá hvein og söng í þér þulan: „Pabbi ýta mér.“ Þessi setning ómar í huga mér þegar ég minnist þín. Svo skríktir þú af gleði, „á hátt, hátt upp í loftið“. Þú varst ætíð mjög hugrakkur en þó svo varkár líka. Þú fylltir hjörtu okkar foreldra þinna gleði og stolti.

Í grunnskóla skaraðir þú fram úr samnemendum fyrir sakir hæversku og háttprýði. Þú varðst tímabundið fyrir einelti. Það var verið að taka af þér húfuna og skólatöskuna á leið heim úr skóla, en þér þótti trúlega sem pabbi og mamma hefðu nóg á sinni könnu, svo þú barst harm þinn í hljóði. Þú leystir úr þessu sjálfur. Þú fannst til með gerendum þínum. Þeir komu frá erfiðum heimilum. Einn var eldri en þú en hinir voru í sama bekk.

Ég gleymi aldrei töfrastundum okkar. Á Þorláksmessu fórum við ætíð saman í bæinn til þess að kaupa síðustu jólagjöfina; handa henni mömmu þinni. Þú varst alveg að verða 8 ára. Á þinn undurljúfa hátt lokkaðir þú mig inn í íþróttavöruverslun á Laugaveginum. Í fyrstu átti bara að skoða. Svo komst þú með brasilíska landsliðstreyju með augun þanin af hrifningu. „Pabbi má ég fá hana, þeir eiga eftir að verða heimsmeistarar?“ Þegar ég játaði hélstu áfram og komst svo með stuttbuxurnar og sokkana í stíl. Stór biðjandi augu bræddu hjarta mitt svo allur landsliðsbúningurinn var keyptur. Ég gleymi aldrei þakklæti þínu, Hjálmar minn: „Pabbi, þú ert besti pabbi í heimi.“ Svo hélstu áfram: „Strákarnir geta ekkert sagt þegar ég kem í svona flottum búningi í leikfimi.“ Þú varst að hrista af þér eineltisdrauginn Hjálmar minn og virðist mér í minningunni, sem það hafi tekist.

Þegar þú varst á aldrinum 8 – 9 ára fórum við oft saman tveir á skíði í Bláfjöllum eftir vinnu og skóla. Þú varst hættur í barnabrekkunum. Þú komst með mér í stólalyftuna. Ég fór niður þar sem brattast var en þú fannst þér þægilegri og öruggari leið. „Betri er krókur en kelda.“ Svo hittumst við niðri við stólalyftuna og fórum saman í henni upp aftur. Við vorum rjóðir í vöngum og hamingjusamir. Þetta voru mér heilagar stundir. Við ræddum lífsgátuna á leiðinni upp í lyftunni. Hugarfar þitt og tilsvör sannfærðu mig um það að þú værir gull af manni.

Við fluttum til Rotterdam í Hollandi svo ég gæti numið barnalækningar. Þar bjuggum við frá 1995 til 2002, lengstum í frábæru yfirlæti. Þú bjargaðir þér strax með því að nota enskuna sem þú hafðir lært til þess að búa þig undir dvöl í útlöndum. Þú áttir von á því að við færum til Bandaríkjanna í sérnám en þau plön brustu vegna glæpaöldu þar í landi og eyðnifaraldurs. Það hefði því ekki átt að koma okkur mömmu þinni á óvart hvað þú varst sjálfbjarga á enskunni þegar til Hollands kom.

Þú varðst fljótt vinmargur. Þú hafðir yfir þér sjarma innri sem ytri fegurðar. Þú varst yngri bræðrum þínum sannur leiðtogi og vinur. Þeir leituðu til þín um huggun þegar mamma og pabbi höfðu verið heldur ströng í uppeldinu. Þú misstir þinn besta vin 14 ára gamall. Sá tók að reykja kannabis og þú ætlaðir þér ekki inn í þann heim. Eftir það tók vinum meðal stúlknanna að fjölga og þú varst farinn að fara í útilegur. Mér er ekki grunlaust um að þú hafir eignast kærustu frá Amsterdam áður en þú dóst en þú sagðir okkur foreldrunum ekki frá því. Við móðir þín þráðum að þú hefðir fengist að kynnast rómantískri ást áður en þú dæir.

Ógleymanlegar sumarferðir til Þýskalands, Belgíu, Frakklands, Portúgal og Ítalíu lifa sem skínandi gersemar í huga mér. Þú varst ávallt svo glaðvær og skemmtilegur Hjálmar minn. Aldrei með neitt vesen. Þú varst ötull að sansa yngri bræður þína þegar þeim lenti saman. Þú sast á milli þeirra í aftursætinu og varðveittir friðinn.

Þegar við létum hraðbát draga okkur á gúmmíbanana í Portúgal sast þú fremstur, Gísli bróðir þinn í miðið og ég aftast. Gísli datt af í krappri beygju og ætlaði í land, en þú taldir í hann kjark og kenndir honum aðferðina við að tolla á banananum. Hraðbáts-skipstjórinn gerði margar tilraunir til að fella okkur af með kröppum beygjum en við tolldum allir á baki. Hvílík sigurstund fyrir Gísla. Þarna sá ég hversu sannur leiðtogi þú reyndist í raun.

Svo byrjaðir þú í Einstein-Lyceum-framhaldsskólanum. Þú varst á námsbraut sem heitir HAVO. Þú stóðst þig frábærlega. Þú varst elskaður og dáður af mörgum stúlknanna enda fullorðnaðist þú svo einstaklega fallega. Frammistaða þín í námi var til eftirbreytni og hegðun þín óaðfinnanleg.

Við vorum farin að telja okkur með innfæddum þegar þú lést voveiflega 27.06. 2002. Þú varst eina barnabarnið sem hést í höfuðið á Hjálmari afa, en hann lést á sama degi ársins og á sama tíma dagsins 18 árum fyrr. Hann varð bráðkvaddur aðeins tæplega sextugur að aldri. Þið dóuð báðir einir. Þennan örlagadag týndist þú í fyrsta skipti á ævinni.

Það var síðasti dagur skólaársins og sumarið komið. Kvöldið áður fengum við móðir þín tækifæri til þess að tjá þér hrifningu okkar og aðdáun á frábærri frammistöðu þinni í prófunum. Við fullyrtum að þú værir sál samheldni og einhugar í okkar fjölskyldu. Þú fékkst að launum 200 evrur. Aurinn ætlaðir þú að nota með frænda þínum og undirbúa þig fyrir nám í MH eina önn og dvelja hjá ömmu þinni. Þig langaði að prófa að vera í skóla með samlöndum þínum. Þú varst einnig búinn að fá vinnu í unglingavinnunni sem tíðkaðist þá meðal ungmenna á þessum aldri. Ferðin heim fór öðruvísi en ætlað var.

Það var ekkert ósagt þegar við fórum að sofa. Þremur dögum seinna varst þú á leið heim til Íslands að hitta þinn sannasta og besta vin, Óla frænda. Þið höfðuð verið sálufélagar frá ungum aldri. Þið voruð sem ein sál. Framtíðin blasti við þér og við foreldrar þínir höfðum miklar væntingar til þín. Þú ætlaðir þér að verða orrustuflugmaður í hollenska hernum.

Það var 29.06. 2002 laust eftir hádegið sem þú fannst örendur á fjölförnum stað á árbakka við á sem heitir Oude Maas. Það er mikil skipaumferð á ánni og hundaeigendur ganga þarna um. Það var hundur gamals manns sem fann þig Hjálmar minn. Þú hafðir banvæna heilaáverka og andlitið var illa leikið. Ég mun aldrei gleyma því blómahafi sem stúlkurnar í Einstein Lyceum lögðu við fundarstað þinn með fallegum kveðjuorðum til þín. Allt voru þetta hvítar rósir. Litur sannleika, hreinlyndis og sakleysis.Við biðjum til Guðs að hann upplýsi á endanum hver fór svona illa með þig elsku Hjálmar minn.

Skyndilegt, óundirbúið og hræðilegt fráfall þitt Hjálmar var óbærilegt högg á okkur foreldra þína og ekki síður yngri bræður þína tvo. Þú hafðir gengið þeim í föðurstað. Ég var svo mikið að heiman vegna vinnu og doktorsnáms. Ég var farinn til vinnu löngu áður en þið vöknuðuð og þið sofnaðir þegar ég kom heim á kvöldin. Þú varst hægri hönd og augasteinn móður þinnar og stærsta stoltið mitt. Mig langaði mest að líkjast þér í geðprýði og háttvísi.

Ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafa átt svo stórkostlegan pilt sem geislaði af tign, göfgi og reisn og skapar mér himnaríki á jörð í endurminningum mínum. Elsku Hjálmar minn, þú vildir engum illt og þú varst fljótur að fyrirgefa, þegar á þér var brotið. Það var gæska þín Hjálmar minn sem varð þér að falli,“ segir Björn í hinstu kveðju til sonar.

Hjálmar Björnsson, f. 08.02. 1986, d. 27.06. 2002.
Hjálmar Björnsson, f. 08.02. 1986, d. 27.06. 2002. Ljósmynd úr einkasafni

Í samtali við blaðamann segir Björn að fólk sem syrgir verði að fá tíma til að gera upp tilfinningar sínar. „Ég hef miklar áhyggjur af því að við séum í allt of ríkum mæli að sjúkdómsvæða sorgina því við skerum okkur frá hinum Norðurlandaþjóðunum í geðlyfjanotkun. Mín reynsla er sú að það verka engin lyf á sorgina. Það verður að vinna á henni eftir öðrum leiðum en með lyfjum,“ segir Björn sem segir að honum finnist sem sorgin eigi undir högg að sækja á sama tíma og fleiri segi sig úr þjóðkirkjunni.

Sorgin er tilfinning, ekki andleg veikindi

„Við þurfum á sálgæslufólki þjóðkirkjunnar að halda og eins og ég sé það þá rís sálgæsla ofar öllum trúarbrögðum mannkyns. Þetta er sameiginlegur mannlegur kjarni og foreldrar sem missa barn í íslam eru að syrgja á sama hátt og þeir sem eru búddatrúar. Í þessu sorgarferli er kjarni sem getur sameinað sundrað mannkyn. Sorgin er tilfinning, ekki andleg veikindi,“ ítrekar Björn.

Björn skiptir sorginni upp í þrennt; það er líkamlegan sársauka, hugrænan og sálrænan sársauka. Eftir missi sem getur verið margs konar – missir barns, foreldris, systkinis, maka, missir geðheilsu eða atvinnu.

„Einelti er missir því maður missir félagslega stöðu sína. Þannig að ég vil ítreka það að við erum öll syrgjendur með einum eða öðrum hætti. Sorgin er ekki röskun og ekki sjúkdómur. Hún er heldur ekki þjáning því þjáning er það undrameðal sem Guð hefur gefið manninum til að lykja um sársauka okkar þegar hann verður vitundinni ofviða. Þannig að það er gríðarleg líkn í þjáningunni,“ segir Björn.

Hann tekur barnsmissi sem dæmi en þá fyllast foreldrar doða vegna þess að sársaukinn er svo óbærilegur að þeir ráða ekki við hann. Þjáningin er vinur okkar en eins og í mínu tilviki þá getur hún orðið að argasta óvini, bætir Björn við. „Maður getur fest sig í strengjum þjáningarinnar.“

Hin hugræna þjáning á sér fimm strengi. Fyrstur er strengur ófriðarhyggjunnar þar sem reiðin og hefndarþorstinn ræður ríkjum að sögn Björns. „Allir sem standa ekki með manni í barnsmissinum verða óvinir manns og fólk fer jafnvel að forðast syrgjandi foreldra vegna reiðiviðbragða sem foreldri ræður ekki við. Reiðin er í grunninn sársauki á dýpið. Þetta þýðir  að þessir reiðu foreldrar sem missa börnin sín, ekki síst feður sem fara að berjast fyrir réttlæti í málum þeirra, stíga á þorskaferil sem kallast ófriðarhyggja. Þeir vilja hengja og skjóta alla þrjóta. Aðeins ein lausn er á þessari ófriðarhyggju, það er með hjálp hófstillunnar, að verða friðsamur aftur og temja sér friðarhyggju.

Óttast að ólánið komi manni að óvörum að nýju

Síðan kemur hörmungarhyggja sem er ekki hótinu betri en ófriðarhyggjan því þegar maður missir barn óvænt þá er höggið óbærilegt og maður vill vernda sig fyrir svo skyndilegum missi. Þannig að maður fer að gera ráð fyrir öllu því versta í öllum aðstæðum til að koma í veg fyrir að ólánið komi manni að óvörum aftur. Þetta vekur kvíða, viðheldur honum og örvæntingu. Gerir það að verkum að maður hættir að þora að elska maka sinn og börnin af ótta við að missa þau,“ segir Björn en að hans sögn er það með hjálp hugrekkis sem fólk nær að tileinka sér eftirvæntingarhyggju en hún slær á hörmungarhyggjuna. Að hafa eitthvað til að hlakka til. Því ef eftirvæntingin er nógu sterk þá slær hún á kvíðann.

„Það sem ég lenti í var sjálfsfórnarhyggjan. Sá mig sem píslarvott. Það hefur þá þýðingu að maður varpar allri ábyrgð af óláni sínu á aðra. Allir aðrir beri ábyrgð og maður nærist á píslum sínum. Hér er það kærleikurinn sem kemur til hjálpar. Að hlúa vel að sjálfum sér og sækja sér hjálp. Með hjálp kærleikans getur maður tekið upp heilbrigða sjálfsræktarhyggju,“ segir Björn.

„Eitt það alvarlegasta í mínu tilfelli var réttlætisnauðhyggjan. Ég taldi að réttlæti væri algilt og óbrigðult lögmál í heimi hér og það myndi aldrei neitt henda mig. Minn mælikvarði á réttlætið var minn eigin dómstóll þannig að ég gekk inn í hlutverk Guðs almáttugs að segja hvað væri rétt og hvað óréttlæti,“ segir Björn Hjálmarsson. Að hans sögn var það trúhneigðin sem hjálpaði honum að losna undan réttlætisnauðhyggjunni.

Eitt af því sem Björn nefnir sem hugræna þjáningu er fullkomnunaráráttan. Hún þjóni þeim tilgangi að gera allt 150% vel til þess að verja sig frekari höfnun. Vandinn er sá að fullkomnunaráráttan kemur í veg fyrir árangur. Því maður getur aldrei klárað neitt þar sem það er aldrei neitt fullgert segir Björn. 

Vítahringur fullkomnunarsinnans

Hann vísar í grein Ingrid Kuhlman sálfræðings þar sem  hún talar um þann vítahring sem fullkomnunarsinnar lenda oft í. Þeir setji sér óraunhæf markmið sem þeir ná svo ekki, af augljósum og óhjákvæmilegum ástæðum. Álagið við að ná fullkomnun og forðast mistök dregur úr skilvirkni þeirra og árangri. Vegna þess hve sjálfsgagnrýnir þeir eru kenna þeir sjálfum sér um þennan lélega árangur, sem hefur aftur neikvæð áhrif á sjálfsálit þeirra auk þess sem kvíði og þunglyndi geta skotið upp kollinum. Á þessum tímapunkti gefast margir þeirra upp og setja sér ný markmið, sannfærðir um að þeir muni ná þeim ef þeir leggja aðeins meira á sig. Þetta hugsanamynstur kemur vítahringnum af stað aftur.

Vítahringurinn lýsir sér líka í því að fullkomnunarsinnar gera oft ráð fyrir eða óttast vanþóknun eða höfnun í samskiptum við annað fólk. Óttinn hefur þau áhrif að þeir fara í vörn þegar þeir fá gagnrýni. Fullkomnunarsinnar eru líka oft gagnrýnir sjálfir og gera ómeðvitað mjög háleitar og óraunhæfar kröfur til annarra. Auk þess reyna margir að fela mistök í stað þess að átta sig á því að með því að opna sig eru meiri líkur á að fólki líki við þá. Vegna þessa vítahrings eiga margir erfitt með að byggja upp náin tengsl.

Fyrsta skrefið við að breyta óæskilegri fullkomnunaráráttu í heilbrigða árangursþörf er að átta sig á því að fullkomnunarárátta er blekking. Síðan þarf að takast á við hugsanirnar sem kynda undir fullkomnunaráráttunni. Að setja sér raunhæf markmið byggð á eigin þörfum og því sem þú hefur áorkað hingað til. 

„Jeg trúi því sannleiki, að sigurinn þinn, að síðustu vegina …
„Jeg trúi því sannleiki, að sigurinn þinn, að síðustu vegina jafni,“ segir á brjóstmynd Þorsteins Erlingssonar en Björn Hjálmarsson leggur oft leið sína að styttunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Sálræn þjáning er miklu flóknari og erfiðari en líkamleg og huglæg,“ segir Björn sem er menntaður barnalæknir með sérnám í geðlækningum barna og unglinga auk smitsjúkdóma barna. Hann er jafnframt með MA-próf í heilbrigðis- og lífsiðfræði.

Þegar átökin milli ástar og haturs í sálinni verða óbærileg fyllumst við tómhyggju, tómlæti. Við sjáum þetta á fólki sem er eins og því standi á sama um allt og alla. Það er rænulaust í sínu lífi. Sættir sig við auðnuleysið og er yfirfullt tómlæti og tómhyggju að sögn Björns.

„Eftir að ég missti foreldra mína réðst ég á barnstrú mína og taldi það skrýtinn Guð sem hjálpaði bara þeim sem hjálpa sér sjálfir. Mér fannst nær að hjálpa okkur hinum. Við tómhyggjunni dugar ekkert annað en að læra að elska sjálfan sig. Að vera góður við sjálfan sig og hlúa að sér. Með því að sofa nóg, sem er stærsta heilbrigðisvandamál Íslendinga þar sem nánast enginn fær nægan svefn, hreyfa sig reglulega, borða hollt og reglulega,“ segir Björn. 

Hjálpar honum mest að hjálpa öðrum

Að sögn Björns fór hann að leggja meiri rækt við starf sitt og það sem hjálpaði honum mest í sorginni var að hjálpa öðrum en hann starfar eins og áður sagði á BUGL. Hann segir að það hafi hjálpað honum mest frá því hann missti Hjálmar að hjálpa börnum með geðrænan vanda. „Þegar þeim gekk betur þá leið mér betur.“

Annar strengur sálrænnar þjáningar er forherðingin. Sem birtingarmynd sálrænnar þjáningar lokar hún á að fólk geri sér grein fyrir eigin veikleikum. „Maður sér þá ekki. Forherðingin veldur því að maður getur orðið öskureiður og öskrað á fólk. Þegar það spyr mann hvers vegna maður sé svona reiður þá öskrar maður á móti: „Ég er ekkert reiður.“ Því forherðingin er orðin svo mikil að maður finnur það ekki sjálfur,“ segir Björn.

Hann bendir á að forherðingin geti valdið því að viðkomandi særi aðra með andlegu, líkamlegu og jafnvel kynferðislegu ofbeldi án þess að sjá það tjón sem þetta veldur öðrum vegna forherðingarinnar, segir Björn.

Eina leiðin frá forherðingunni er í rauninni guðdómurinn og að leggja rækt við fegurðina í hjarta sér, segir Björn. „Iðrun, miskunnsemi og fyrirgefningu. Einhver mestu friðartæki sem við eigum en erum allt of ódugleg við að nota. Um leið og maður fyrirgefur sjálfum sér að vera ekki fullkominn þá þarf maður ekki eins mikið á forherðingunni að halda.“

„Sjálfsblekkingin getur verið svo kröftugur varnarháttur við sálrænum sársauka eins og gerðist í mínu tilfelli, ég fór beinlínis í geðrof af sorg eftir syni mínum og öllum þeim ljótu eftirmálum. Þá er sjálfsblekkingin orðin algjör. Sjálfsblekkingin á sér svo miklu fleiri birtingarmyndir því geðrofið er yfirleitt friðsamt og mikill misskilningur að halda því fram að geðsjúkir séu ófriðarsinnar. Þeir eru það ekki nema við föllum í þá gildru að beita þá ofbeldi. Það er ofbeldi gagnvart geðsjúkum sem veldur þeim viðbrögðum að þeir svara í sömu mynt. Mér finnst allt of mikið kerfisbundið ofbeldi í gangi gagnvart fólki í geðrofi í dag og það þarf að milda þetta,“ segir Björn.

Björn telur mikilvægara að auka sálgæslu á lokuðum geðdeildum í stað þess að beita fólk sem þar dvelur alvarlegum þvingunum. „Það er mikill missir að missa geðheilsuna og þá þarf maður á sálgæslunni að halda. Við eigum svo mikið af dásamlegu sálgæslufólki og þurfum að hverfa frá því vinnulagi að læknir sjái um sjúklinginn á meðan hann er lifandi og þegar hann deyr taki presturinn við. Þetta þarf að vinna saman því við læknar vitum ákaflega lítið um sorg og það var ekki fyrr en ég missti barn sem ég lærði á sorgina.“

Sjálfsblekkingunni getur maður ekki unnið á nema gangast við því af fúsum og frjálsum vilja að vera bæði skeikull, breyskur og hverfull. Að maður sé fjarri því fullkominn. Að þekkja alla sína veikleika og styrkleika og lifa í sátt og samlyndi við þá á sama tíma og maður reynir að auka styrkleika og minnka veikleika,“ segir Björn í samtali við blaðamann.

Björn segir að hann hafi barist eins og ljón fyrir því sem hann taldi vera réttlæti. Það hafi reynst honum erfitt að sætta sig við málatilbúnað lögreglunnar í Rotterdam, að Hjálmar hafi látist af slysförum.

„Að Hjálmar hafi ekki aðeins misst líf sitt heldur einnig æruna. Það var auglýst eftir honum sem misindismanni vegna þess hversu illa svokallaðir vinir hans báru honum söguna. Þeir sögðu að hann hefði verið dauðadrukkinn í prófi sem stóðst ekki. Þeir þóttust ekki hafa séð hann daginn sem hann týndist en svo fannst skólataskan hans Hjálmars heima hjá einum þeirra. Þeir eiga ýmislegt óhreint í pokahorninu þessir strákar og í rauninni sé ég þetta þannig að þetta voru örlagatímar í Hollandi,“ segir Björn og vísar þar til drápsins á hollenska stjórnmálamanninum Pim Fortuyn en hann var skotinn til bana fyrir utan sjónvarpsstöð í byrjun maí þetta sama ár.

Björn segir að á þessum tíma hafi lögreglan reynt að sópa öllum erfiðum málum undir teppið til þess að kynda ekki undir ólguna í landinu.

„Ég sá að ég gæti eytt ævinni í að berjast fyrir rétti látins sonar míns,“ segir Björn en við ramman reip var að draga þar sem lögreglan hafi myndað varnargarða í kringum piltana sem Björn telur að hafi átt hlut að máli. „Það sem ég harma mest fyrir hönd vina Hjálmars var að þeir voru dæmdir til að syrgja á þann erfiðasta hátt sem hægt er að hugsa sér – þeir syrgja í lyginni.“

„Endurheimta frelsi mitt“

Björn flutti Hjálmari hugvekju í Hjallakirkju í maí 2016 og þar fór hann í fyrirgefningarferli gagnvart banamönnum Hjálmars. „Það var erfitt. Fyllti mig tómleika og ég varð óvinnufær í nokkra daga. Ef maður fer í fyrirgefningarferli þá verður maður að gefa sér góðan tíma, hlúa vel að sjálfum sér og ef maður ræður ekki við verkefnið, að fá þá sálgæsluaðstoð.“

Hann segir að eiginkona hans, Dagný Hængsdóttir, hafi verið hans helsti styrkur undanfarin ár. Hún fékk hann til að skilja að það er bil á milli áreitis og viðbragða. „Hversu lengi ætlar þú að láta ólán þitt skilgreina þig og þín viðbrögð? Af hverju notar þú ekki frelsið þitt til sköpunar?“ hefur Björn eftir Dagnýju í samtali við blaðamann.

Hjálmar sendir honum vafurloga í hjartað. „Þetta er tilfinning sem ég hef enga stjórn á sjálfur en gefur mér von um að hann hafi það gott þar sem hann er núna. Ég átti ekkert annað betra til að gefa syni mínum en að kafa ofan í fyrirgefninguna og láta ekki ólánið skapa mig heldur endurheimta mitt sjálfræði. Endurheimta frelsi mitt.

Betri krókur en kelda – held að ég hafi ratað ofan í allar keldurnar í sorgardalnum þess vegna veit ég hverjar þær eru. Vítin eru til þess að varast þau. Ég held að sorgin sé eitthvað sem maður tekst á við alla ævi en ég segi mína sögu til að vara aðra við. Gætið ykkar, það eru gildrur í sorgardalnum og reynið að sneiða hjá þeim. Leitið ykkur hjálpar,“ segir Björn og segist vonast til þess að viðtalið geti hjálpað öðrum sem eru sömu sporum og hann. 

„Það getur enginn hlaupið frá sorg og hún er bæði lífsnauðsynlegt og óhjákvæmilegt þroskaferli. Ef við vöndum okkur þá getur hún líka verið gullfalleg og þá verður vondur sársauki góður. Hvort sem það er í líkamanum, huganum eða sálinni,“ segir Björn Hjálmarsson í samtali við blaðamann mbl.is. 

„Sál mín er barmafull af þakklæti, Hjálmar minn. Þú verður ylurinn og birtan í hjarta mínu til æviloka. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur. Stoltur fullyrði ég að þú varst drengur góður.

Guð geymir þig í helgu hjarta sér, Hjálmar minn. Vertu endilega duglegur að senda mér vafurloga í hjartað því hann nærir mig og styrkir til góðra verka. Ég bið þig að hugga og styrkja móður þína og bræður þína tvo sem eru öll að standa sig eins og hetjur í þeirri dýpstu sorg sem hægt er að hugsa sér. Takk fyrir hreint dásamlega samveru,“ skrifar Björn Hjálmarsson í hinstu kveðju sinni til Hjálmars. 

Sonarminni

Björn Hjálmarsson

Samskipta, allra veðra von,
vor skaphöfn er hörð og áköf.
Það var snilld mér að ala son,
sem brotsjór bar á yztu nöf.

Frumvaxta; Guði líf þitt fól,
þú, fallegi snáðinn góði.
Í hjarta mér fann hvergi skjól,
ég hugsjúkur grét í hljóði.

Eilífðin geymir öll þín spor,
þú, elsku hjartans yndið mitt.
Í lundu mér lék aftur vor,
lærði að meta lífshlaup þitt.

Bjartur reyndist blíður drengur,
bestur við foreldra sína.
Hreinan tón hver sálarstrengur,
hermdi upp á fegurð þína.

Nóg er komið af sorg og sút,
saman við syngjum af gleði.
Leystir á sál mér harðan hnút,
hamingja för okkar réði.

Mildi kankvís mig mærir mest,
með rjóðar og heitar kinnar.
Mér er hreinlyndi hjartans best,
og heimspeki sálar þinnar.

mbl.is