Örvæntingin skín úr augum þeirra sem falla

Jón Magnús Kristjánsson.
Jón Magnús Kristjánsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það sem situr mest í mér eftir 20 ára vinnu á bráðadeild Landspítalans tengist fíkn,“ sagði Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar LSH á afmælisráðstefnu á Nordica, sem haldin er vegna 40 ára afmælis SÁÁ, þar sem fjallað var um fíkn og stofnanir.

Jón sagðist hafa séð fíkn samstarfsmanna í eiturlyf, áfengi og vinnu. Einnig afleiðingar fíknar fyrir sjúklinga sem leita á bráðadeildina. „Þetta snýst líka um hvað það er auðvelt að vera með fordóma og segja að þetta sé eitthvað sem ætti að vera annars staðar og komi okkur ekki við,“ sagði Jón.

Sjáum einstaklinga upp á sitt versta

„Við sjáum einstaklinga upp á sitt versta í sinni fíkn. Einstaklingar sem hafa haldið sér edrú í tugi ára og örvæntingin skín úr augum þeirra þegar þeir falla,“ sagði Jón og bætti við að fíkn gegnsýri starf bráðadeildar.

Hann kvaðst sjá aukningu á kannabisreykingum og þær væru í allt of mörgum tilvikum ekki bara saklaust tómstundargaman.

Jón ræddi einnig um læknadóp en honum þykir læknar allt of ragir að ræða læknadóp. Það sé aukning á ávísunum á sterkum lyfjum hér á landi. „Það er lítið talað um þetta meðal lækna. Við erum eins og læknar í Bandaríkjunum fyrir aldamót þar sem sagt var að verkalyf væru bara góð og það ætti að nota þau óspart.“

Hann sagði að áhættan og ábyrgð lækna við að skrifa svona lyfseðla sé mikil. „Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum vanda varðandi sterk verkalyf. Ég er pínu hræddur við það að við séum á svipuðum stað og í upphafi HIV faraldursins. Þetta er samskonar hópur; jaðarhópur. Það fylgir því skömm að vera í hópnum, það eru fordómar gagnvart honum og viðhorfið gagnvart hópnum er að þetta sé þeim að kenna: „Þú tókst of mikið af verkjalyfjum.““

Markhópur einstaklingar á lokastigi fíknisjúkdóms

Sigurður Örn Hektorsson, yfirlæknir fíknigeðdeildar Landspítalans fjallaði um fíknigeðdeildina og starfsemina þar en þar eru í boði 15 pláss og þrjú yfirflæðispláss.

„Markhópur deildarinnar eru einstaklingar á á lokastigi fíknisjúkdóms; með alvarlegar geðrænar, félagslegar og líkamlegar afleiðingar. Einstaklingar með alvarlega líkamlega sjúkdóma þar sem ekki er hægt að koma við meðferð á almennri sjúkradeild vegna fíknisjúkdóms,“ sagði Sigurður.

Hann sagði enn fremur að innkomur á deildina hefðu aukist um 20% síðustu tvö ár. „Legutími hefur á sama tíma styst en við getum ekki annað gert þegar fleiri koma,“ sagði Sigurður og bæti við að það væri alltaf yfirfullt á deildinni.

Krakkarnir mega detta á rassinn

„Unglingarnir hafa yfirleitt engan áhuga á breytingum, það er enn allt svo ógeðslega gaman,“ sagði Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla en hann ræddi starfsemina þar.

Hann útlistaði nokkrar grunnforsendur í stofnanameðferð sem farið er eftir á Stuðlum. Í fyrsta lagi þurfi að stuðla að öryggi krakka sem koma á Stuðla enda séu margir þættir sem tengjast fíkninni.

Funi Sigurðsson.
Funi Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Börnin eiga það sameiginlegt að það er allt mölbrotið; skólaganga fjölskylda og félagsskapur,“ sagði Funi.

Hann sagði einnig að reynt væri að efla tengsl við fjölskyldu. Sjúklingurinn sé ekki eingöngu meðhöndlaður, heldur fjölskyldan líka. Í framhaldi megi staðurinn ekki vera einangraður. „Við þurfum að forðast félagslega einangrun og útskúfun og þurfum að geta aðlagað þau út í raunveruleikann,“ sagði Funi.

Hann sagði að það væri algjört lykilatriði að krakkarnir læra á þátttöku í daglegu lífi. Því sé í lagi að mistakast. „Krakkarnir detta á rassinn en það er hluti af því að læra,“ sagði Funi.

mbl.is