Setti niður skilti og byrjaði að rukka

Landeigendur að Hraunfossum í Borgarfirði hafa ekki skýra lagalega heimild …
Landeigendur að Hraunfossum í Borgarfirði hafa ekki skýra lagalega heimild til að rukka fyrir bílastæði að mati Umhverfisstofnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byrjað var að rukka inn á bílastæðið við Hraunfossa í morgun. Vakin var athygli á þessu í Facebook-hópinum Bakland ferðaþjónustunnar. Stendur á skilti sem komið var fyrir á svæðinu að gjald fyrir fólksbíla sé 1.500 kr, 2.000 kr. fyrir ofurjeppa, 4.000 kr. fyrir smárútur og 6.000 kr. fyrir stærri rútur. Greint var frá því í sumar að ekki sé lagaleg heimild fyrir því að rukka fyrir bílastæðin við Hraunfossa enda teljist þau hluti af hinu friðlýsta svæði.

„Það mætti maður í morgun og setti niður skilti og byrjaði að rukka inn á svæðið,“ segir Jón Björnsson þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi. „Landvörður okkar fór strax í að fylgjast með, taka myndir og hafa eftirlit með því sem er að gerast.“ Jón segir landverði ekki hafa heimild til að grípa inn í, en þeir veiti upplýsingar og skrái niður hverjir eru rukkaðir.

Jón segir ýmsa hafa snúið frá Hraunfossum nú í morgun. „Rútur greiða ekki, enda hafa bílstjórarnir vísað beint á viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki.“

Hödd Vilhjálmsdóttir almannatengill sem starfar fyrir H-fossa, leigutaka svæðisins, segir verð fyrir fólksbílinn vera 1.000 kr. Prentaðir hafi verið nokkrir miðar þar sem vitlaust verð á fólksbílum hafi komið fram. Verðið sé hins vegar 1.000 kr. en ekki 1.500 kr. og rukkað hafi verið samkvæmt þeirri gjaldskrá í dag. 

Búið er að setja upp verðlista við bílastæðin við Hraunfossa …
Búið er að setja upp verðlista við bílastæðin við Hraunfossa og byrjað er að rukka fyrir. Ljósmynd/Facebook

Skrúfuðu skiltið upp á staur Vegagerðarinnar

„Þeir skrúfuðu skiltið upp á staur Vegagerðarinnar og Vegagerðin er nú búin að fjarlægja skiltið,“ segir Jón og kveður fulltrúa Vegagerðar og Umhverfisstofnunnar nú vera á staðnum ásamt landverði. „Menn eru í þessum töluðu orðum á fullu að skoða viðbrögð.“ 

Hann segir ekkert hafa breyst varðandi þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að gjaldtaka sé óheimil á bílastæðinu við Hraunfossa og Ólafur Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun tekur í sama streng.

„Þessi gjaldtaka er ólögmæt að mati Umhverfisstofnunnar,“ segir Ólafur og vísar einnig til þess að svæðið sé innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar.

Hann segir Umhverfisstofnun vera búna að upplýsa lögreglu um stöðu mála og óska eftir að þeir fari í málið. „Þeir eru búnir að fá gögn frá okkur sem vísa í að við teljum þetta vera ólögmætt og að við teljum tilefni til að stöðva þetta. Hvort þeir verða við þeirri beiðni kemur svo bara í ljós.“

Fréttinni hefur verið breytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert