Orð eru sterkari en ofbeldi

Tawakkol Karman er handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011. Hún flutti …
Tawakkol Karman er handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011. Hún flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu Höfða friðarseturs í morgun. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Ungt fólk gegnir lykilhlutverki í baráttunni fyrir friði í heiminum. „Orð eru sterkari en ofbeldi,“ segir Tawakkol Karman en hún er aðgerðarsinni og blaðamaður frá Jemen. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2011 meðal annars fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna í heimalandinu.

Hún hefur beitt sér bæði fyrir tjáningarfrelsi, bættri stöðu kvenna og stofnað baráttusamtök fyrir jafnrétti í Jemen, Samtök kvenna án hlekkja.

Þegar Karman hlaut friðarverðlaunin, ásamt tveimur öðrum konum, forseta Líberíu, Ellen Johnson Sirleaf og Leymah Gbowee, einnig frá Líberíu, var hún yngsti handhafi friðarverðlaunanna, 32 ára gömul. Meðal annars fyrir baráttu Karman og annarra aðgerðarsinna sem tóku þátt í arabíska vorinu árið 2011 hraktist Ali Abdullah Saleh úr forsetastóli eftir að hafa setið þar í 33 ár.

Ekki var öðrum gefið færi á að bjóða sig fram til forseta nema varaforseta landsins, Abdra­buh Mans­ur Hadi. Þegar Hadi tók við átti hann að sitja til bráðabirgða í tvö ár sam­kvæmt samn­ingi sem Sa­leh gerði þegar hann fór frá völdum. Hadi er enn forseti landsins og þar hefur geisað stríð í tæplega þrjú ár.

Vill aukin völd til ungs fólks

Karman segir að hennar draumur sé að hlutur ungs fólks verði aukinn þegar kemur að völdum og ákvarðanatöku í heiminum. Ekki sé lengur í boði að koma á breytingum nema ungt fólk komi þar að. Við þurfum að veita ungu fólki stuðning og aðstoð við að ná fram draumum sínum, sagði Karman á alþjóðlegri ráðstefnu Höfða friðarseturs í Háskóla Íslands í morgun.

Hvers vegna? Hvers vegna viltu eyðileggja skólann minn?
Hvers vegna? Hvers vegna viltu eyðileggja skólann minn? AFP

„Við náum ekki árangri nema við hlustum á raddir þeirra og þau verða að koma að uppbygginu friðar í heiminum,“ segir Karman.

Með þeirra aðild sem og fjölmiðla er hægt að ná fram jafnrétti og réttindum kvenna. Fjölmiðlum ber að upplýsa um hatursorðræðu og ofbeldi. Jafnframt er mikilvægt að fjalla um baráttuna fyrir mannréttindum þar sem barist er gegn spillingu og hatri. 

Friður þýðir ekki bara að stöðva stríð heldur einnig óréttlæti og spilltum stjórnvöldum. Óstöðugleiki og óréttlæti eru andstæður friðar. Berjast verður gegn þessum með öllum ráðum, segir handhafi friðarverðlauna Nóbels. 

Karman hvatti ungt fólk sem kom að hlýða á hana á ráðstefnunni í morgun til þess að berjast fyrir lýðræði og öðru frelsi til að rækta eigin drauma, svo sem að koma á betri heimi fyrir alla. Sérstaklega í samfélögum þar sem einræðisherrar eru við völd.

Ykkar er valdið til þess að láta drauma ykkar rætast, voru ráðleggingar hennar til ungra námsmanna. „Hafið trú á ykkur sjálfum. Með því getið náð því fram sem þið viljið,“ segir hún.

Hún ráðlagði þeim að taka þátt í stjórnmálastarfi með þekkinguna að vopni. „Orð ykkar eru sterkari en ofbeldi,“ segir Karman og bætti við; „Leiðið land ykkar til framfara.“

Heimurinn lokar augunum fyrir gleymda landinu

Tawakkol Karman fjallaði um ástandið í Jemen í fyrirlestri sínum. Hún segir að heimurinn hafi lokað augunum fyrir ástandinu þar. Landi þar sem hungur og farsóttir hrjá milljónir. Í meira en tvö ár hefur geisað borgarastyrjöld í landinu þar sem þjóðin skiptist í tvær fylkingar. Önnur styður, líkt og alþjóðasamfélagið og hernaðarbandalag undir forystu Sádi-Arabíu, Abd-Rabbu Mansour Hadi.

Hin fylkingin, vopnuð samtök Húta og eru kennd við stofnanda sinn, klerkinn Hussein al-Houthi, njóta stuðnings Írana. Hútar hófu uppreisn árið 2004 gegn ríkisstjórn landsins sem var aðallega skipuð súnní-múslímum. Uppreisnarmennirnir beittu skæruhernaði með hléum þar til borgarastríð blossaði upp fyrir rúmum tveimur árum.

Hútar hafa notið stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Þeir leystu þing Jemen upp og stofnuðu byltingarráð í byrjun ársins 2015. Forseti landsins, Mansur Hadi, flúði frá höfuðborginni Sanaa til hafnarborgarinnar Aden og óskaði eftir aðstoð stjórnvalda í Sádi-Arabíu. Þau hófu hernað gegn uppreisnarmönnunum með stuðningi fleiri arabalanda þar sem súnní-múslímar eru í meirihluta.

Leyfðu mér að njóta menntunar og greiðið kennaranum mínum laun.
Leyfðu mér að njóta menntunar og greiðið kennaranum mínum laun. AFP

Fólk fær ekki greidd laun og allar nauðsynjar skortir

Karman segir að íbúar þessa gleymda lands þjáist í eigin landi þar sem bæði hungursneyð og kólera geisa. Fólk hefur ekki fengið greidd laun mánuðum saman, ekkert rafmagn né rennandi vatn er í boði. Höfuðborginni er skipt upp eftir stríðandi fylkingum og almennir borgarar eru þeir sem þjást. 

Talið er að um 21 milljón Jemena þurfi á neyðaraðstoð að halda. Það eru um 80% landsmanna.  Umsátur hefur ríkt í þrjú ár og fólk hefur ekki aðgang að nauðsynjum. 

Í síðasta mánuði birti mann­rétt­indaráð Sam­einuðu þjóðanna nýja skýrslu um ástandið í Jemen og Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­in (WHO) hvatti stjórn­völd í Jemen til þess að samþykkja bólu­setn­ingar­átak gegn kóleru. Ótt­ast er að fyr­ir árs­lok geti um ein millj­ón íbúa Jemen verið smituð af kóleru.

„Mann­rétt­inda­brot halda áfram án af­láts í Jemen, auk al­var­legra brota á alþjóðleg­um mannúðarlög­um. Óbreytt­ir borg­ar­ar eru fórn­ar­lömb „ham­fara af manna­völd­um,“ að því er fram kem­ur í nýrri mann­rétt­inda­skýrslu Sam­einuðu þjóðanna sem kom út í dag, 5. sept­em­ber.

Að minnsta kosti 5.144 óbreytt­ir borg­ar­ar hafa týnt lífi og 8.749 særst frá því átök brutust út á nýjan leik í Jemen fyrir þremur árum. 1.184 börn hafa dáið og 1.541 særst. Loft­árás­ir banda­lags und­ir for­ystu Sádi-Ar­ab­íu hafa grandað flest­um, jafnt börn­um sem öðrum sem týnt hafa lífi. Auk árása á markaðstorg, sjúkra­hús, skóla, íbúðahverfi og borg­ara­leg mann­virki hafa und­an­farið ár verið gerðar loft­árás­ir á jarðarfar­ir og lít­il ferðaskip. Zeid Ra’ad Al Hus­sein, mann­rétt­inda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, seg­ir brýnt að skipa óháða, alþjóðlega nefnd til að rann­saka átök­in í Jemen. 

„Það er til skamm­ar hversu alþjóðasam­fé­lagið hef­ur verið ófúst til að krefjast rétt­læt­is fyr­ir hönd fórn­ar­lamba átak­anna í Jemen og það hef­ur að mörgu leyti stuðlað að áfram­hald­andi hryll­ingi,“ seg­ir Zeid.    

mbl.is