Mörgum nemendum var brugðið

Krakkar á gangi skammt frá Setbergsskóla í Hafnarfirði.
Krakkar á gangi skammt frá Setbergsskóla í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hafnarfjarðarbær hefur birt bréf sem skólastjóri Setbergsskóla sendi foreldrum barna í skólanum vegna eldsvoðans sem varð þar í hádeginu. Þar kemur fram að eldurinn hafi komið upp á salerni í mötuneyti skólans.

„Húsumsjónarmaður brást skjótt við og slökkti eldinn en mikill reykur fylgdi í kjölfarið og því var óskað eftir aðstoð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við reykræstingu. Sem betur fer urðu engin slys á fólki en mörgum nemendum var eðlilega brugðið þegar viðvörunarbjöllurnar fóru í gang,“ segir í bréfinu.

Þar kemur fram að starfsfólk skólans hafi farið með alla nemendur út á skólalóð og voru þeir þar þangað til hægt var að hleypa bekkjum á svæði utan eldvarnarhólfsins sem reykurinn náði til.

Farið var með yngstu nemendurna í sal íþróttahússins þar sem ekki var hægt að fara þá inn í kennslustofur.

„Kennarar og starfsfólk fóru með 1. og 2. bekk yfir í Krakkaberg en þau voru einu nemendur skólans sem ekki gátu farið í sínar kennslustofur eftir atvikið.“

Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir í samtali við mbl.is að skólastarf gangi sinn vanagang þrátt fyrir þetta atvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert